4. nóvember 2013

Listin að skilgreina list

„Hvað er list?“ er spurning sem erfitt er að svara, þar sem það reynist næstum ómögulegt að finna sameiginlegan nefnara, einhver mörk fyrir alla þá list sem fyrirfinnst í heiminum. Sumar ganga meira að segja svo langt að halda því fram að allt sé list. Aftur á móti nær algjör skilgreining slíkrar afstæðishyggju ekki langt, þegar kúkur í dós er borin saman við Sálumessu Mozarts (og er reyndar hugsun sem dregur langan dilk á eftir sér, því hún gjaldfellir listamannalaun o.fl.). En hvenær hætta þá hlutir að vera óspennandi og venjulegir? Hvenær hættir kúkurinn að vera saur og rís upp á hið „æðra stig lista“?

Mikilvægt er að gera greinarmun á listinni og verkfærinu, þ.e.a.s. tækninni eða handverkinu, sem notað er til að skapa hana. Tæknina og handverkið má æfa; það er hægt að þjálfa skrift, teikningu og hæfileikann að spila á hljóðfæri, en það gerir engan sjálfkrafa að listamanni. Notast má við ritlist (sem að mati höfundar er eitt margra umræddra verkfæra sem sportar nokkuð misvísandi nafni) til að skrifa ritgerð eða grein, sem er hugsanlega vel skrifuð og kemur hugmyndum höfundar vel til skila, en getur verið gjörsamlega sneydd allri fagurfræði. Fáir myndu flokka tækniteikningu af rafrás, eða hringitón í síma sem list. Hins vegar verða öll þessi „verk“ til með hjálp verkfæra, sem á íslenskri tungu eru oftar en ekki kennd við list (ritlist, myndlist, tónlist, o.s.frv.). Skilja verður að tæknin eða handverkið er fyrst og fremst verkfæri þess sem kann að umgangast það og er í mörgum tilvikum hans lifibrauð.

Ef ofangreindur munur á list og verkfæri er gerður, fylgir því á mjög náttúrulegan hátt aðgreining á góðri og slæmri list. Slæm skáldsaga er álíka andrík og fræðigrein og tónar Leoncie eiga meira skylt við hringitón en hljómsveitina Radiohead. Þegar listamaðurinn gerir fátt annað en að sýna verklagni sína má oftar en ekki flokka list hans sem slæma. Sumir eru meira að segja bæði and- og hæfileikalausir, eins og einstaklingurinn á bak við verkið af kettinum Pétri hér að ofan, sem hýst er í hinu virta The museum of bad art (MOBA). Hvar draga skal mörkin er val hvers og eins, en skilin innan myndlistarinnar má hugsanlega finna með því að gera upp við sjálfan sig hvort að verk naívismans séu góð eða slæm. Ef ég mætti ráða, þá héngu fleiri naívísk verk á MOBA, en ég er víst ekki einn í heiminum…

11. október 2013

Með partíið í hnakkanum

Ég var mikill myndasöguaðdáandi á árum áður, en á námsárum mínum datt þessi áhugi tímabundið uppfyrir. Það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum, sem ég gluggaði aftur í gömlu myndasögurnar mínar og hóf að fullkomna safnið. Fyrr á þessu ári fjárfesti ég svo í rosalegum doðranti, sem segir söguna af því þegar Ofurmennið, Superman, lést. Þessi saga var upphaflega gefin út árið 1992 og vakti mikla athygli hjá fjölmiðlum á sínum tíma (þegar ég var lítill átti ég úrklippu úr Morgunblaðinu, sem sýndi þekktar ofurhetjur bera líkkistu með hinu þekkta "S"-i ofaná; sjá mynd á vinstri hönd), enda ekki á hverjum degi sem elsta ofurhetja myndasagnanna gefur upp öndina.

Ofurmennið lést eftir að hafa barist við óstöðvandi skrímsli. Hann notaði sína seinustu krafta til að drepa skrímslið og dó hetjulegum dauðdaga í faðmi kærustu sinnar, Lois Lane. Í kjölfarið af andláti hetjunnar bláklæddu fylgdi mikil pólitísk deila um hvað ætti að gera við líkið hans; sumir vildu klóna Ofurmennið, á meðan aðrir vildu byggja átrúnaðargoði sínu grafhýsi og jafnvel altari. Það kom þó á daginn að Ofurmennið var alls ekki dautt, heldur áttu sér ákveðnir atburðir stað, sem í heild sinni eru of flóknir til að hægt sé að gera þeim skil hér, en leiddu að lokum til endurlífgunar hans. Þessi endurlífgun tók hins vegar heilt ár, svo að ofurhetjan upprisna sneri aftur með sítt og mikið hár.

Ofurmennið hlaut þar með möguleikann á að státa einni svölustu klippingu aldarfjórðungsins: síðu að aftan! Ekki minni menn en David Hasselhoff, sem gerði garðinn frægan sem strandvörðurinn Mitch Buchannon, báru þessa hárprýði með höfuðið hátt og sönnuðu fyrir heiminum að ekki einungis amerískir roðhnakkar (e. rednecks) gætu flaggað „mölletti“. Sítt að aftan er töff og praktískt, þar sem að hárið að framan mun aldrei skyggja sjón þess sem ber það, á meðan makkinn að aftan vermir hnakka hans á köldum vetrarkvöldum. Eins og gamall bolur minn orðar það: business in the front, party in the back!

5. júlí 2010

Það er svo heitt!

Undanfarna daga er búið að vera óbærilega heitt í Þýskalandi. Hitastigið er í kringum bræðslumark hitamæla og þýska veðurstofan varar við mögulegum skógarbrunum, í kjölfarið. Lene Voigt-almenningsgarðurinn í Leipzig, sem liggur í nágrenni við heimili mitt, er allur sviðinn. Jafnvel þó það hafi rignt í nótt, virðist hitastigið samt ekki hafa breyst; enn blæs hlýju lofti úr suðri, á meðan sólin grillar saklaust mannfólkið. Ég er að stikna.

28. júní 2010

Ekki missa af Þorvaldi!

Þorvaldur Davíð Kristjánsson - söngleikjagoðsögnin, sem gerði allt vitlaust í Verzló - er á forsíðu nýjustu útgáfu menningarritsins Monitors. Í kímnu viðtali við fréttamenn segir Þolli frá trylltu lífi sínu í New York og gerir klassískt grín að íslensku veðurfari. Hann rifjar upp bernsku sína, sem hann eyddi með fjölskyldu sinni að selja steina, en þar segir hann leiklistarferil sinn á ensku hafa hafist. Greinilegt er að enskan reynist honum ekki fjötur um fót í dag, því Þolli getur snarar orðum eins og „Kolaportið“ yfir á ensku, án þess að þurfa að hugsa sig um.

Dvölin vestan Atlandshafs hefur ekki aðeins auðgað listnæmi hans, heldur einnig innsæi í gang heimsmálanna; hann heldur með þýska landsliðinu, á heimsmeistaramótinu í fótbolta, því „það er best fyrir hið alþjóðlega hagkerfi, ef að Þýskaland verður heimsmeistari“. Seðlabanki Íslands beinir nú sjónum sínum til þessa unga og efnilega pilts, því þeir gætu séð hag sinn í því að fá svona skarpan og myndarlegan mann, með góða enskukunnáttu, í sínar raðir. Og ekki skemmir fyrir að hann gæti troðið upp á starfsmannauppákomum. Áfram Þorvaldur og áfram Þýskaland!

6. janúar 2009

Það er svo kalt!

Í morgun voru -19°C hér í Leipzig og yfir daginn verður það lítið skárra. Fjölmiðlar segja nóttina hafa verið eina þá köldustu hér í Þýskalandi, síðan 1987, en einna kaldast var það í kringum Leipzig; í nágranna-bænum Delitzsch féll kvikasilfurssúlan niður í -26°C! Í Hamborg voru rútur sendar út til að taka heimilislausa af götunum og flytja þá í hlýja íþróttahöll. Í Weimar fraus eldri kona í hel. Lestum og flugvélum hefur seinkað vegna hins gífurlega kulda en á morgun á ástandið að skána, samkvæmt veðurspánni. Þangað til skokka ég á staðnum til að halda á mér hita.

31. desember 2008

Blogg-annáll Bullerjahns 2008

Margt hefur gengið á á árinu sem nú er að líða, bæði í mínu lífi og í þjóðlífinu. Þess vegna hef ég ákveðið að taka hér saman helstu viðburði lífs míns, en leyfi Fréttaannálinum og Skaupinu að taka púlsinn á þjóðarsálinni.

Árið byrjaði aðfararnótt nýársdags, þegar ég kynntist Bergdísi Ingu (fyrir miðju á myndinni hér að ofan) í trylltu áramótapartýi hjá Eyþóri Páli (neðst til vinstri á myndinni). Nokkrum dögum seinna varð ég hins vegar að snúa aftur til Þýskalands og við sáumst ekki aftur fyrr en í vorfríi mínu í febrúar. Febrúar var ansi snjóþungur þetta ár og veðrið var brjálað þegar ég lenti um nóttina, eftir fimm tíma seinkunn. Þýski vinur minn, Enno Keßler (til hægri á myndinni að ofan), heimsótti mig á Íslandi í lok febrúar og reyndi þrátt fyrir mikinn snjó að ferðast svolítið um landið. Við Enno fórum svo saman á námskeið á vegum Max Planck-stofnunarinnar í Golm (en listaverk á lóð þeirrar stofnunnar má sjá á myndinni hér til hliðar), í byrjun mars, og eftir páska (þegar stýrivextir Seðlabankans hættu að gera sitt gagn og krónan féll í fyrsta skiptið) skellti ég mér til Rotterdam. Þar heimsótti ég Bergdísi og vinkonu hennar, Ingu Auðbjörgu. Nánar var sagt frá Hollandsferðinni og ævintýrunum í Golm í færslunni Almenna afstæðiskenningin og Holland, sem finna má á þessari síðu.

Í maí var ég í vikulöngu Hvítasunnufríi og þess vegna kom Bergdís að heimsækja mig í Leipzig. Haldin var grillveisla hjá mér og samleigjendum mínum og ég sýndi Bergdísi Austur-Þýskaland. Við eyddum heilum degi í Weimar og Naumburg og fórum til Dresden. Í ágúst tók ég þátt í verklegri æfingu á stjörnuathugunarstöðinni í Tautenburg, Thüringen, m.a. ásamt stærðfræðingnum Eric. Við tókum reyndar ekki þátt í beinum mælingum, en við bjuggum algjörlega einangraðir uppi á fjalli - við hliðina á stjörnukíkinum (á myndinni hér að ofan) - og nutum óvenju stjörnubjarts næturhimins. Við Bergdís, sem hafði eytt ágústmánuði í Þýskalandi, fórum saman til Berlínar og þar eftir heim til Íslands, í lok mánaðarins, og mættum tímanlega til að fylgjast með hruni Glitnis og upphafinu á endalokum byggðar á Íslandi. Í Berlín gerðum við okkur glaðan dag með systursonum föður míns, Thomasi (sem gantast með Bergdísi á myndinni hér til hliðar) og Hannesi.

Á Íslandi heimsótti Marianne (á myndinni hér til hægri, fyrir framan Öxarárfoss), litla systir Claudiu og djammfélagi minn í Leipzig, mig og naut íslensks verðlags og náttúru. Við Bergdís fórum saman norður til Akureyrar og heimsóttum þar afa hennar og ömmu, fórum á Hið íslenzka reðasafn á Húsavík, fórum í viðtal hjá nokkrum Kanadabúum sem gerðu heimildamynd um reðasafnið, keyrðum í kringum Mývatn og gengum í gegnum Dimmuborgir. Þar að auki kíktum við í heimsókn til ungu hjónanna, Ragnars „Huma“ og Hólmfríðar Helgu, og vil ég nota tækifærið og óska þeim enn og aftur til hamingju með nýfæddu prinsessuna, Snæfríði Eddu. Ég sneri aftur til Þýskalands um það leiti sem að hinir tveir útrásarbankarnir hrundu og hitti Skúla, en við tveir áttum nokkra góða daga saman áður en hann hélt áfram ferð sinni til Ástralíu. Ég tók svo diplom-próf í stjörnufræði í byrjun nóvember og síðan þá hefur ekkert marktækt gerst í mínu lífi...

Ég vona að árið 2009 verði jafn spennandi og það sem nú er að líða. Ég vil óska öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og gæfu og velgengni á nýju ári. Lifið heil.

16. desember 2008

...af því að það eru jól

Jólaundirbúningurinn tröllríður hinum vestræna heimi þessa dagana. Það má þó ekki gleymast í glundroðanum að hlusta á góð jólalög inn á milli og því ákvað ég að taka saman nokkra klassíska jólapoppsmelli, til að bræða hjörtu neytenda og þerra tár áhættufjárfesta. Fyrir neðan má finna þrjá smelli sem eru tilvaldir til að hlusta á í skammdeginu; við bjartan bjarmann af brennandi, nú verðlausum, hlutabréfum.

Band Aid - Do They Know It's Christmas?

David Bowie & Bing Crosby - Little Drummer Boy

Nat King Cole - The Christmas Song

Ég kem heim að kvöldi, þann 19. desember. Sjáumst þá. Gleðileg jól.