17. desember 2007

Það sem á daga mína, undanfarnar vikur, hefur drifið

Úff, seinustu vikur hafa verið skrautlegar. Ómeðvitað framlag mitt til barnamorða í Palestínu var í formi skemmtistaðarferðar, einhvern tímann í lok nóvember, á stað sem styður beint AntiFa-hreyfinguna (fyrir þá sem ekki þekkja þann vafasama söfnuð, þá má í stuttu máli lýsa stefnu AntiFa sem andþýskri, Bandaríkja- og Ísraelsinnaðri - slíkt væri svosum í lagi ef það fæli ekki líka í sér andúð á Palestínu, sem það því miður gerir). Á þessum skemmtistað, þar sem bannað er að bera svokallaða „Palestínuklúta“ og allir gestirnir þykjast vera anarkistar, rakst ég á félaga minn úr eðlisfræðinni; af einskærri tilviljun fórum við að tala um anarkisma (sem viðmælandi minn þóttist aðhyllast, a.m.k. á góðviðrisdögum). Ég hellti mér að sjálfsögðu yfir hann, kallaði stefnuna afsökun unglinga til að hanga niðri í bæ alla daga og drekka áfengi. Eftir miklar rökræður sættumst við á að halda þessu samtali áfram seinna, edrú.

Fyrir tveimur vikum skrapp ég til Weimar og Naumburg, tveggja smábæja í Mið-Þýskalandi. Myndir munu birtast hér á síðunni, þegar ég hef gefið mér tíma að framkalla filmuna. Það var mjög fínt...meira um það seinna.

Þessa helgi fór ég á föstudaginn í afmæli hjá eðlisfræðingum, sem var ekkert allt of brjálað en huggulegt þó; enn og aftur rifjaðist upp fyrir mér af hverju ég umgengst frekar stærðfræðingana, heldur en nördana í eðlisfræðinni. Og á laugardaginn skrapp ég með sambýliskvensunum í leikhús, á „fullorðinssýningu“ barnaleikrits nokkurs sem frænka Kristinar hafði saumað búningana fyrir (við áttum semsé frímiða á sýninguna), og eftir á á krá í nágrenninu. Allir voru frekar þreyttir og í litlu stuði, en það breyttist þegar við skelltum í okkur smá tequila! Ég varð mjög drukkinn og fór að spjalla við nokkra mjög massaða menn um jöfnur Maxwells (þeir voru rafmagnsverkfræðingar, sem voru að rannsaka áhrif raf- og segulsviða á gangráða). Þeir voru ágætir...

Jæja, nóg um það! Ég kem heim hinn 21. desember og verð á landinu til 5. janúar. Vonast til að sjá alla lesendur hressa og káta í heitum potti yfir hátíðirnar.