23. júlí 2008

Trúarblinda

Það er til trúað fólk, þ.e.a.s. fólk sem trúir því að eitthvað yfirnáttúrulegt standi á bak við alheiminn, og á meðal þess eru einstaklingar sem halda uppi svokallaðri guðskenningu. Kenning þessi segir upphaf alheimsins og alls lífs, fjölbreytileika lífvera og náttúrulögmálin vera verk guðs; veru sem er eldri en allt og á að vera hönnuður tilveru okkar. Guðskenningin er kenning, líkt og allar vísindalegar kenningar, og því í samkeppni við þær. Það má færa rök fyrir því að vísindin standi guðskenningunni framar, þar sem þau eru fær um að spá fyrir um hegðun náttúrunnar, á meðan báðar kenningarnar geta ekki útskýrt upphaf alls. Vísindin geta ekki svarað spurningunni „hvað olli miklahvelli?“ (ef það er þá yfir höfuð hægt að tala um einhverjar orsakir áður en tíminn varð til - sjá nánar greinina Í leit að skapara, á Dindli) á meðan guðskenningin, sem getur svarað spurningunni að framan, bregst þegar maður spyr sig „hvernig varð guð til?“ Að mínu mati hefur guðskenningin ekkert til málanna að leggja, því í stað þess að binda endahnút á þá keðju orsaka og afleiðinga, sem tilvera okkar samanstendur af, bætir hún einungis nýjum hlekk(jum) við keðjuna. En það er smekksatriði.

Guðskenningin verður því með einhverju móti að sanna sig og því reyna áhangendur hennar að finna fyrirbæri innan náttúrunnar, sem eru vísindalega óútskýranleg. Sköpunarsinnar - fylgjendur guðskenningarinnar - gætu útskýrt þessi fyrirbæri með hugmyndum um „gáfulega“ eða jafnvel „fullkomna“ hönnun, þ.e.a.s. að guð hafi skapað allt til að smella saman eins og púsluspil (þar sem hann hefur algjöra yfirsýn yfir sköpunarverk sitt). Sem sýnidæmi fylgir hér myndbrot, en í því eru færð rök fyrir „fullkominni“ hönnun banana:

Ég þarf vonandi ekki að benda neinum lesanda á að náttúruval þróunarkenningarinnar útskýrir einnig þessa „algjöru tilviljun“ innan náttúrunnar - þó án þess að gera ráð fyrir tilvist alviturs og óskeikuls skapara.

En er hægt að líta á guðskenninguna sem heiðarlega samkeppni við vísindin? Eftirfarandi er viðtal við einhvern verkfræðing (og rithöfund), Chuck Missler að nafni. Hann trúir eigin orðum svo innilega; ég veit ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta:

Taka skal eftir því að enginn stærðaskali á orku - sem það tekur að skapa líf - eða tíma - sem það tekur lífrænar sameindir til að hópast saman í einhvers konar grunnlíf (t.d. frumu) - er gefinn upp. Þetta er skólabókadæmi um það hvernig margir (ef ekki flestir) sköpunarsinnar taka meginmál vísindanna úr samhengi, til þess að villa um fyrir óvitum (og það er ekki sérlega heiðarlegt). Staðhæfingar Chucks eru frá öllum hliðum séð gallaðar, fáránlegar, jafnvel barnalegar og langt frá því að vera andsvar við svari vísindanna. Sem dæmi: tíminn sem það tekur líf að verða til er að öllum líkindum EKKI svipað langur og tíminn sem það tekur að útbúa hnetusmjör. Og ef svo væri væri ómögulegt að sjá þetta nýja líf með berum augum (en enginn skoðar hnetusmjörið sitt undir smásjá, áður en hann smyr því á brauðsneiðina sína) og þróun lífvera tekur líka örlítið lengri tíma en tíminn, sem líður á milli þess að hnetusmjörið fer í hillur verslana, og að kaupandinn kaupir það, svo það mun enginn gíraffi stökkva upp úr krukkunni - ef það er það sem Chuck á við. Einstaklingar eins og hann eru kannski (í stöku tilfelli) ekki mestu mannvitsbrekkurnar, en ég held frekar að þeir reyni ekki einu sinni að skilja kenningar vísindanna. Þeir eru alfarið blindaðir af trú.

16. júlí 2008

Veirurvá á meðal nemenda

Fyrir um mánuði síðan heyrði ég sögu af nemanda nokkrum, hér í Leipzig, sem hafði farið til heimilislæknis vegna óskilgreindra óþæginda sem hrjáðu hann. Læknirinn tók víst einhver sýni, sem send voru í ræktun, því stuttu seinna barst þessum nemanda símtal, þar sem læknirinn bað hann að koma á stofuna sína hið snarasta; átti nemandinn ekki að hafa nein óþarfa samskipti við meðborgara sína og mátti ekki nota almenningssamgöngur. Það kom í ljós að nemandi þessi var berklasmitaður, sem kom honum mjög á óvart þar sem hann hafði ekki ferðast utan Evrópu (en margir smitast af einhverju í útlöndum og bera það með sér heim) í mörg ár. Umræddur nemandi nemur almenn málvísindi.

Í seinustu viku var síðan annar meðleigjenda minna, sem einnig er í málvísindanámi - og fólkið með henni í áfanga - beðin um að sitja eftir; heilbrigðismálaráðuneytið ætlaði að kanna hvort fleiri nemendur væru smitaðir. Voru þau sprautuð með efni, sem veldur bólgu í kringum stungusvæðið ef um er að ræða smit, og öll send í lungna-röntgenmyndatöku. Daginn eftir fékk hinn meðleigjandinn minn, sem er í kínversku, tölvupóst þess efnis að hún (ásamt öðrum úr áfanganum hennar) ætti að fara í athugun út af einhverjum ótilgreindum smitsjúkdómi. Eins og engan kann að furða, var um berklapróf að ræða.

Ég vil taka það fram að hjá þeim báðum reyndist „bólguprófið“ neikvætt og enn hefur enginn haft samband út af röntgenmyndatökunum. Það sýnist því á öllu að þær séu báðar ósmitaðar. Heilbrigðisyfirvöld virðast einnig taka ástandið alvarlega, svo ég efast um að það séu miklar líkur á því að yðar einlægur smitist af berklum... Vona ég.

5. júlí 2008

Edwin Hubble var ekkert merkilegri en ég

Á fimmtudaginn héldu eðlisfræðingar í Leipzig sumarhátíð sína (veðurfræðingarnir máttu slást í för með okkur) og í tilefni dagsins var keppt í hinum og þessum íþróttagreinum, drukkinn bjór, steikur og pylsur grillaðar og á endanum borðaðar. Hátíð þessi var haldin í almenningsgarði nokkrum, sem liggur við hliðina á eðlisfræðiskorinni og er fyrrverandi kirkjugarður. Ég tók reyndar ekki þátt í íþróttaatburðunum, en stóð við vallarmörkin með bjór og pylsu í hendi og veitti þannig fótboltagörpunum og blakhetjunum andlegan stuðning. Af reynslu minni af þessum hátíðum þekki ég mikilvægi þess að vera í regnkápu, því það bregst ekki að það byrji að rigna þegar eðlisfræðingar ætla að gera sér glaðan dag og hið árlega rafmagnsleysi lét heldur ekki á sér standa; um hálfellefu leytið hætti tónlistin að óma og bjórdælan gaf upp andann. Aðstandendur voru þó fljótir að hrekja upptök vandans, enda þaulvanir aðstæðum sem þessum. Drukkið var langt fram á nótt, mikið var dansað og gólað í skjóli myrkurs og sumir komust ekki einu sinni heim til sín, heldur urðu að gista í húsakynnum nemendastjórnarinnar. Ég komst þó óskaddaður, en nokkuð ölvaður, heim til mín.

Annars mun ég vinna frá 18. til 22. ágúst í stjörnuathugunarstöð, en það er í tengslum við stjarneðlisfræðiáfanga sem ég heimsæki. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég frétti að ég ætti ekki eftir að sitja þar allar nætur og fylgjast með næturhimninum, heldur einungis vinna úr eldri gögnum, en það er skárra en ekki neitt. Við eigum víst að greina litróf vetrarbrauta. Þann 23. ágúst mun ég síðan hitta Bergdísi og við verðum samferða heim til Íslands hinn 28. Ég verð á landinu til sjötta október; vonast til að hitta sem flesta í millitíðinni!