24. október 2008

Heilabrot No.2

Ef ég helli helming innihaldsins úr vatnsflösku, sem hefur staðið nógu lengi til að vera í varmafræðilegu jafnvægi (þ.e.a.s. varmi vatnins er jafnt dreifður á allt innihaldið), í aðra flösku enda ég uppi með tvær vatnsflöskur með sama varma og mólfjölda. Ef ég aftur á móti klíf nifteindastjörnu (hvernig sem ég fer að því) - dæmigerðar stærðir fyrir massa nifteindastjarna eru m = 1,3 - 2,1 msólin - er ólíklegt að ég endi uppi með tvær jafnþungar nifteindastjörnur. Nifteindirnar gætu t.a.m. klofnað í róteindir og rafeindir og báðir helmingar stjörnunnar gætu orðið að hvítum dvergum. Ég er samt ekki alveg viss.

Viðbót: Ég hef fengið nokkrar kvartanir þess efnis að hugleiðingin hér að ofan sé svolítið torskilin - ef ekki óskilin. Ég viðurkenni að ég hafi ekki nefnt þá staðreynd að nifteindastjarna myndast þegar kjarni sprengistjörnu (e. Supernova) hrynur saman, með þeim afleiðingum að rafeindir frumeindanna skella inn í frumeindakjarnana og mynda með róteindum þeirra nifteindir. Þrýstingur nifteindanna gagnvart þrýstingi þyngdaraflsins kemur í veg fyrir að stjarnan hrynji enn frekar saman (og myndi svarthol eða eitthvað enn óþekkt), en það myndi gerast ef kjarninn væri massameiri en sem nemur m = mVolkoff-Oppenheimer = 1,5 - 3 msólin. Þótti mér óþarft að nefna að ef massi nifteindastjörnurnnar myndi minnka - t.d. ef hún yrði klofin í tvennt - þá væri þrýstingur nfiteindanna mun meiri en þyngdaraflsins og nifteindastjarnan óstöðug (massinn væri minni en dæmigerður massi nifteindastjarna, m = 1,3 - 2,1 msólin, eins og fram kemur að ofan); hún myndi kannski verða að hvítum dvergi, kannski ekki. Óvissan liggur í því að nifteindastjarnan verður til við sprengingu sprengistjörnu, en klofningurinn umræddi jafnast ekki á við öfugt ferli stjörnusprengingar (hvað sem það nú er).