22. nóvember 2007
Heilabrot No.1
Rakst á auglýsingaspjald fyrir utan hús Ennos, en á því stóð svo mikið sem: 2m2. Húðin þín. Dýrmætustu fermetrar lífs þíns. Og hvað? Á ég að sleppa því að fá mér húðflúr? Er það vandamál í Þýskalandi að fólk selji húðina sína, eða sói henni almennt í einhverja vitleysu; rífi af sér húðlufsu þegar það vantar klósettpappír? Ég skil þetta ekki. Skrítin auglýsing.
21. nóvember 2007
Tryllt helgi

Um hálffimmleytið var Eric orðinn svo fullur að hann rakst utan í allt sem fyrir varð og henti glóandi sígarettum á parketlagt gólfið, þegar honum fannst hann hafa fengið nóg. Hann fór að tala um fyrrverandi kærustuna sína, sem hafði víst haldið fram hjá honum og hætt svo með honum rétt fyrir eitthvert lokaprófið hans, og kallaði hana „litla mellu“. Ég fór með hann út, svo hann gæti andað að sér fersku lofti, kom honum í rúmið og labbaði heim með hjól og pedala í farteskinu.
Næsta dag vaknaði ég eldhress, klukkan hálfellefu um morguninn, og um kvöldið fengum við gesti til okkar í heimsókn. Drukkið var romm, í kóklíki og limesafa, bjór og vín. Ég endaði um fimmleytið í eldhúsinu, skeggræðandi siðferði þess að sýna sundurskorin lík almenningi (sjá sýninguna Körperwelten hér í Þýskalandi).
Á mánudaginn fór ég svo aftur með hjólið mitt aftur í viðgerð og fékk ég það aftur í hendurnar í gær. Ég er að fara niður í bæ í kvöld, á hjóli, og vonast til að komast með báða pedala heim aftur.
3. nóvember 2007
...Og ég horfi á heiminn, sem ég þóttist þekkja, skolast burt og hverfa með öllu

Ég er að sjálfsögðu að tala um Fatboy Slim, The Chemical Brothers, The Prodigy, Air og Moby, svo einhverjir séu nefndir. Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég, í partíi nokkru, samtal við nokkra misgáfaða einstaklinga um einmitt þessar hljómsveitir og tónlistarmenn og gerðu þeir vægast sagt grín að ýmsum verkum þeirra; með tilliti til tónlistarinnar í dag áttu þeir erfitt með að ímynda sér hvernig þeir hefðu getað hlustað á „svona lagað“ í den. Ég beit á tunguna og lét það eiga sig að minnast á að mér þætti enn vænt um gömlu plöturnar mínar - plötur umræddra tónlistarmanna og hljómsveita - til að koma í veg fyrir mögulegt einelti en minnti sjálfan mig á að ef þessara fyrirrennara hefði ekki notið við, væri raftónlistarsena samtímans önnur en hún er. Þessir „gömlu“ meistarar voru bara svo óheppnir að gefa út eina lélega plötu (samkvæmt gagnrýnendum) og það gerði útslagið, þeir urðu eftir við vegkannt frægðarinnar og afstæðið þurrkaði út allar minningar um forna sigra þeirra.
Það er skelfilegt að horfa upp á það, sem þú eitt sinn trúðir á, veslast upp og deyja...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)