
Ég er að sjálfsögðu að tala um Fatboy Slim, The Chemical Brothers, The Prodigy, Air og Moby, svo einhverjir séu nefndir. Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég, í partíi nokkru, samtal við nokkra misgáfaða einstaklinga um einmitt þessar hljómsveitir og tónlistarmenn og gerðu þeir vægast sagt grín að ýmsum verkum þeirra; með tilliti til tónlistarinnar í dag áttu þeir erfitt með að ímynda sér hvernig þeir hefðu getað hlustað á „svona lagað“ í den. Ég beit á tunguna og lét það eiga sig að minnast á að mér þætti enn vænt um gömlu plöturnar mínar - plötur umræddra tónlistarmanna og hljómsveita - til að koma í veg fyrir mögulegt einelti en minnti sjálfan mig á að ef þessara fyrirrennara hefði ekki notið við, væri raftónlistarsena samtímans önnur en hún er. Þessir „gömlu“ meistarar voru bara svo óheppnir að gefa út eina lélega plötu (samkvæmt gagnrýnendum) og það gerði útslagið, þeir urðu eftir við vegkannt frægðarinnar og afstæðið þurrkaði út allar minningar um forna sigra þeirra.
Það er skelfilegt að horfa upp á það, sem þú eitt sinn trúðir á, veslast upp og deyja...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli