
Bók þessi gerði mig þó meðvitaðan um allar þær klisjukenndu aðstæður sem flestir gætu samsvarað sig við en líklega fæstir hafa upplifað í lifanda lífi. Það er svipað með þær og bragð rauðs, jarðarberjalaga hlaups; það halda því allir fram að það bragðist eins og jarðarber, en svo fer fjarri, þetta eru allt saman klisjur. Jarðarber eiga jafn lítið skylt með klisju-jarðarberjabragði hlaupsins og klisjukenndar aðstæður með lífinu á jörðinni. Samfélagið hefur þó komið á fót þessum gerviheimi, sem inniheldur allar helstu klisjur sem skynfæri okkar hafa komist í tæri við, og heldur þeim við með hjálp bragðefna og kvikmynda. Við meðtökum þennan heim jafnmikið og raunheiminn og grípum jafnvel til hans og klisjanna, þegar við lendum í aðstæðum sem við þekkjum ekki af reynslu. Hver hefur t.d. ekki sagt orðin „ég samhryggist“ við einhvern, þegar hann fréttir að þessi einhver hafi misst ástvin? Setning þessi er ekki lýsandi fyrir það sem í brjósti okkar býr en við höfum heyrt aðra nota hana við svipaðar aðstæður og því grípum við klisjuna á lofti.
Þessi kenning myndi líklega færa mér svarta beltið í heimspeki ef ekki væri fyrir það smáatriði að klisjukenndar aðstæður megi (þótt fáar séu) finna fyrir utan gerviheiminn - réttara sagt í raunheiminum. Ég vitna, máli mínu til stuðnings, í frásögn vinkonu minnar af dvöl hennar í Dresden, ásamt nokkrum sínum, seinasta vetur: eitthvert kvöldið, þegar þau gengu í frosti og snjó framhjá Frúarkirkjunni, sá hún hvernig blindur maður gekk upp að kirkjudyrunum, lagði rauðar rósir á tröppurnar og hvarf inn í snjóbylinn... Ef þetta er ekki klisja, þá veit ég ekki lengra.
1 ummæli:
Ég las reyndar bókina ekki í lestinni, heldur talstvert fyrir ferðalagið góða, um nótt undir sæng í þrumuveðri. Mér fannst þessi bók geggjuð, en ég held að það hafi aðallega verið af því að mér leið einsog ég væri aðalpersónan. Annars mæli ég líka með Da Vinci-lyklinum og Harry Potter-bókunum.
Skrifa ummæli