21. október 2007

Barneignir og sjötta skilningarvit karlmannsins

Í gærkvöldi kíktu fyrrverandi nágranni minn úr götu Gogga svarta, Mathias, og kærasta hans, Sabine, í heimsókn. Við elduðum saman og drukkum bjór langt fram eftir kvöldi. Skyndilega sagðist Mathias þurfa að segja okkur frá einhverju leyndarmáli og áður en hann gat haldið áfram skaut yðar einlægastur inn í: „hvað, er Sabine ófrísk?“. Hann jánkaði því og þegar Kristin, nýi meðleigjandinn minn og Kínafari, spurði hvort barneignin hefði verið slys, botnaði ég með því að fullyrða að svo væri - sem reyndist aftur vera rétt. Aðspurð sögðu Mathias og Sabine að von væri á litla krílinu hinn 20. apríl, sem Mathias þóttist ekki vera sérlega hrifinn af. Ég var að sjálfsögðu fyrstur okkar gestgjafanna til að benda á að Adolf Hitler hefði átt afmæli á þeim degi og var því kominn með þriggja stiga forystu í spurningakeppni meðleigjanda. Ég krafðist þess að verða guðfaðir barnsins.

Það er hreint ótrúlegt hvað karlmenn eiga auðvelt með að finna á sér óléttu. Því til stuðnings má benda á að hinn meðleigjandi minn, Claudia, ætlaði að segja kærastanum sínum fréttirnar en þegar hún sagðist þurfa að segja honum eitthvað, í kjölfar þess að hann frétti að Mathias og Sabine höfðu verið í heimsókn, svaraði hann: „er Sabine ólétt, eða hvað?“. Það mætti líkja þessum vafasama hæfileika okkar karla við nýtt skilningarvit, sjötta skilningarvitið, sem þróast hjá öllum karlmönnum í kringum kynþroskaskeiðið út af ótta þeirra við föðurhlutverkið. Að baki þessum hæfileika karlmanna, að geta sér til um barneignir, gæti þó líka legið sú staðreynd að þegar karlmenn eiga sér yfir höfuð leyndarmál, þá kemur aðeins eitt til greina: barneignir.