Margt hefur gengið á á árinu sem nú er að líða, bæði í mínu lífi og í þjóðlífinu. Þess vegna hef ég ákveðið að taka hér saman helstu viðburði lífs míns, en leyfi Fréttaannálinum og Skaupinu að taka púlsinn á þjóðarsálinni.
Árið byrjaði aðfararnótt nýársdags, þegar ég kynntist Bergdísi Ingu (fyrir miðju á myndinni hér að ofan) í trylltu áramótapartýi hjá Eyþóri Páli (neðst til vinstri á myndinni). Nokkrum dögum seinna varð ég hins vegar að snúa aftur til Þýskalands og við sáumst ekki aftur fyrr en í vorfríi mínu í febrúar. Febrúar var ansi snjóþungur þetta ár og veðrið var brjálað þegar ég lenti um nóttina, eftir fimm tíma seinkunn. Þýski vinur minn, Enno Keßler (til hægri á myndinni að ofan), heimsótti mig á Íslandi í lok febrúar og reyndi þrátt fyrir mikinn snjó að ferðast svolítið um landið. Við Enno fórum svo saman á námskeið á vegum Max Planck-stofnunarinnar í Golm (en listaverk á lóð þeirrar stofnunnar má sjá á myndinni hér til hliðar), í byrjun mars, og eftir páska (þegar stýrivextir Seðlabankans hættu að gera sitt gagn og krónan féll í fyrsta skiptið) skellti ég mér til Rotterdam. Þar heimsótti ég Bergdísi og vinkonu hennar, Ingu Auðbjörgu. Nánar var sagt frá Hollandsferðinni og ævintýrunum í Golm í færslunni Almenna afstæðiskenningin og Holland, sem finna má á þessari síðu.
Í maí var ég í vikulöngu Hvítasunnufríi og þess vegna kom Bergdís að heimsækja mig í Leipzig. Haldin var grillveisla hjá mér og samleigjendum mínum og ég sýndi Bergdísi Austur-Þýskaland. Við eyddum heilum degi í Weimar og Naumburg og fórum til Dresden. Í ágúst tók ég þátt í verklegri æfingu á stjörnuathugunarstöðinni í Tautenburg, Thüringen, m.a. ásamt stærðfræðingnum Eric. Við tókum reyndar ekki þátt í beinum mælingum, en við bjuggum algjörlega einangraðir uppi á fjalli - við hliðina á stjörnukíkinum (á myndinni hér að ofan) - og nutum óvenju stjörnubjarts næturhimins. Við Bergdís, sem hafði eytt ágústmánuði í Þýskalandi, fórum saman til Berlínar og þar eftir heim til Íslands, í lok mánaðarins, og mættum tímanlega til að fylgjast með hruni Glitnis og upphafinu á endalokum byggðar á Íslandi. Í Berlín gerðum við okkur glaðan dag með systursonum föður míns, Thomasi (sem gantast með Bergdísi á myndinni hér til hliðar) og Hannesi.
Á Íslandi heimsótti Marianne (á myndinni hér til hægri, fyrir framan Öxarárfoss), litla systir Claudiu og djammfélagi minn í Leipzig, mig og naut íslensks verðlags og náttúru. Við Bergdís fórum saman norður til Akureyrar og heimsóttum þar afa hennar og ömmu, fórum á Hið íslenzka reðasafn á Húsavík, fórum í viðtal hjá nokkrum Kanadabúum sem gerðu heimildamynd um reðasafnið, keyrðum í kringum Mývatn og gengum í gegnum Dimmuborgir. Þar að auki kíktum við í heimsókn til ungu hjónanna, Ragnars „Huma“ og Hólmfríðar Helgu, og vil ég nota tækifærið og óska þeim enn og aftur til hamingju með nýfæddu prinsessuna, Snæfríði Eddu. Ég sneri aftur til Þýskalands um það leiti sem að hinir tveir útrásarbankarnir hrundu og hitti Skúla, en við tveir áttum nokkra góða daga saman áður en hann hélt áfram ferð sinni til Ástralíu. Ég tók svo diplom-próf í stjörnufræði í byrjun nóvember og síðan þá hefur ekkert marktækt gerst í mínu lífi...
Ég vona að árið 2009 verði jafn spennandi og það sem nú er að líða. Ég vil óska öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og gæfu og velgengni á nýju ári. Lifið heil.
31. desember 2008
16. desember 2008
...af því að það eru jól
Jólaundirbúningurinn tröllríður hinum vestræna heimi þessa dagana. Það má þó ekki gleymast í glundroðanum að hlusta á góð jólalög inn á milli og því ákvað ég að taka saman nokkra klassíska jólapoppsmelli, til að bræða hjörtu neytenda og þerra tár áhættufjárfesta. Fyrir neðan má finna þrjá smelli sem eru tilvaldir til að hlusta á í skammdeginu; við bjartan bjarmann af brennandi, nú verðlausum, hlutabréfum.
Band Aid - Do They Know It's Christmas?
David Bowie & Bing Crosby - Little Drummer Boy
Nat King Cole - The Christmas Song
Ég kem heim að kvöldi, þann 19. desember. Sjáumst þá. Gleðileg jól.
Band Aid - Do They Know It's Christmas?
David Bowie & Bing Crosby - Little Drummer Boy
Nat King Cole - The Christmas Song
Ég kem heim að kvöldi, þann 19. desember. Sjáumst þá. Gleðileg jól.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)