26. júní 2008

Ný upplifun

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þessa dagana á sér stað Evrópumót í knattspyrnu uppi í Alpafjöllum, sem og sú staðreynd að Englendingar máttu ekki vera með (vonandi skilja Íslendingar nú að England sé lélegt lið, samansett af fyrrverandi boxurum og nærbuxnafyrirsætum). Ég er ekki mikill fótboltaunnandi, en þegar bestu lið Evrópu takast á geri ég mér gjarnan glaðan dag með bjór í hendi.

Það var einmitt tilfellið í gær, en þá áttust við Þýskaland og Tyrkland. Þetta var í sjálfu sér svolítið absúrd leikur, þar sem 1/3 hluti íbúafjölda Þýskalands er af tyrknesku bergi brotinn (ég er persónulega ekki alveg viss á þessari tölfræði en það búa a.m.k. svo margir Tyrkir í Þýskalandi að í Bandaríkjunum var gefin út alfræðiorðabók, sem hélt því fram að opinber tungumál Þýskalands væru tyrkneska og þýska), og því var undirrituðum nokkuð óljóst með hverjum hann átti að halda. Honum rann þó blóðið til skyldunnar, enda er blóð þykkara en bjór, huldi sig með fánalitum föðurlandsins og hvatti sína menn. Þó rofnaði útsendingin í seinni hálfleik, þegar Vínarborg varð rafmagnslaus, sem leiddi til þess að Fótboltabullu-Jakob varð að hlaupa inn í eldhús og fylgjast með leiknum í ljósvaka, sem var kvalinn veðurfræðilegum truflunum. Með loftnet í höndunum, hlustandi á æstan íþróttaþul í gegnum skruðninga (það var því svolítill stríðsfréttablær yfir þessu öllu saman), reyndi yðar einlægastur að komast að því hver hefði skorað. En gleðin tók öll völd þegar leiknum lauk með þýskum sigri.

Ég verð að viðurkenna að þessar aðstæður, sem neyddu mig til að hlaupa um íbúðina með útvarpstækið, gerðu fótboltaáhorfið mun margþættara en vanalega og spennan var ótrúleg. Ég hvet því Knattspyrnusamband Evrópu til þess að rjúfa oftar útsendinguna, til að auka áhrifamátt leikjanna.