Ég var mikill myndasöguaðdáandi á árum áður, en á námsárum mínum datt þessi áhugi tímabundið uppfyrir. Það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum, sem ég gluggaði aftur í gömlu myndasögurnar mínar og hóf að fullkomna safnið. Fyrr á þessu ári fjárfesti ég svo í rosalegum doðranti, sem segir söguna af því þegar Ofurmennið, Superman, lést. Þessi saga var upphaflega gefin út árið 1992 og vakti mikla athygli hjá fjölmiðlum á sínum tíma (þegar ég var lítill átti ég úrklippu úr Morgunblaðinu, sem sýndi þekktar ofurhetjur bera líkkistu með hinu þekkta "S"-i ofaná; sjá mynd á vinstri hönd), enda ekki á hverjum degi sem elsta ofurhetja myndasagnanna gefur upp öndina.
Ofurmennið lést eftir að hafa barist við óstöðvandi skrímsli. Hann notaði sína seinustu krafta til að drepa skrímslið og dó hetjulegum dauðdaga í faðmi kærustu sinnar, Lois Lane. Í kjölfarið af andláti hetjunnar bláklæddu fylgdi mikil pólitísk deila um hvað ætti að gera við líkið hans; sumir vildu klóna Ofurmennið, á meðan aðrir vildu byggja átrúnaðargoði sínu grafhýsi og jafnvel altari. Það kom þó á daginn að Ofurmennið var alls ekki dautt, heldur áttu sér ákveðnir atburðir stað, sem í heild sinni eru of flóknir til að hægt sé að gera þeim skil hér, en leiddu að lokum til endurlífgunar hans. Þessi endurlífgun tók hins vegar heilt ár, svo að ofurhetjan upprisna sneri aftur með sítt og mikið hár.
Ofurmennið hlaut þar með möguleikann á að státa einni svölustu klippingu aldarfjórðungsins: síðu að aftan! Ekki minni menn en David Hasselhoff, sem gerði garðinn frægan sem strandvörðurinn Mitch Buchannon, báru þessa hárprýði með höfuðið hátt og sönnuðu fyrir heiminum að ekki einungis amerískir roðhnakkar (e. rednecks) gætu flaggað „mölletti“. Sítt að aftan er töff og praktískt, þar sem að hárið að framan mun aldrei skyggja sjón þess sem ber það, á meðan makkinn að aftan vermir hnakka hans á köldum vetrarkvöldum. Eins og gamall bolur minn orðar það: business in the front, party in the back!
11. október 2013
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)