26. júlí 2007

Apaplánetan

Fyrirsögnin lofar góðu; þessi pistill er áreiðanlega hörð ádeila á neyslusamfélagið, sem letur til sjálfstæðrar hugsunar og þaggar niður í almenningi með gylliboðum útsala. Rangt. Ég mun einungis fjalla um kvikmyndina Apaplánetan (Planet Of The Apes), endurgerð hennar og leikarann Mark Wahlberg.

Ég er einn af þeim sem aldrei vissu af skuggahlið Marks, fyrr en nú fyrir skömmu. Þannig er nefnilega í pottinn búið að Mark Wahlberg var rappari, á tíunda áratugnum, og kallaði sig Marky Mark. Ásamt The Funky Bunch átti hann nokkra smelli, en vinsælasta lag hans er án efa smellurinn Good Vibrations. Myndbandið við það lag er að finna hér að neðan (takið eftir atriðinu þegar hann hendir steypulóðunum í jörðina, með þeim afleiðingum að þau brotna. Mjög hart):

Mark lék í endurgerð kvikmyndarinnar Apaplánetan, í leikstjórn Tim Burtons, sem hlaut fremur dræmar viðtökur, en mér fannst hún hreinlega geðveik. Flestum fannst endir myndarinnar stórundarlegur, en hann víkur frá endi upprunalegu myndarinnar - í stað þess að geimfarinn Roger Taylor finni leifar frelsisstyttunnar á ströndinni kemst persóna Marks (Leo Davidson) aftur til framtíðar, en sér til mikillar skelfingar endar hann í Washington-borg búsettri öpum! Ég skildi aldrei viðbrögð áhorfenda, sem yfirgáfu kvikmyndasalinn fussandi og sveiandi, þar sem kvikmyndin var endurgerð rúmlega 30 ára gamals verks. Að sjálfsögðu var pólitískt landslag sjöunda áratugarins allt annað en núna um aldarmótin og nýir tímar kalla á nýjar lausnir. Ég veit hreinlega ekki við hverju kvikmyndahússgestir bjuggust; var það í alvörunni trú þeirra að kvikmyndin yrði nákvæm eftirmynd fyrirrennara síns? Hver er þá tilgangurinn með því að endurgera myndir? Snúast endurgerðir bara um að bæta sjónrænt gildi eldri mynda eða felst kannski einnig í þeim einhver sköpun? Er það ekki annað en sjálfsagt að listamaðurinn fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri? Er það ekki einmitt þess vegna sem hann ákveður að endurvinna verk annarra?

Það er trú mín að kvikmyndagerðarmenn, fyrst þeir eru á annað borð að endurgera myndir fortíðar, eigi að leggja sitt af mörkum og staðfæra boðskap upphaflegu verkanna. Upprunaleg útgáfa Apaplánetunnar kom út á tímum Kalda stríðsins og var ádeila á kjarnorkuvána, sem hvíldi yfir Vesturlöndum. Í dag er öldin þó önnur (21. öldin, sko) og martraðir Bandaríkjamanna snúast um heimsyfirráð hryðjuverkamanna og fyrrum einvalda Mesópótamíu. Tökum nýju Apaplánetuna í sátt, jafnvel þótt Mark Wahlberg sé leiðinlegur leikari, og fögnum því að við séum ekki þrælar apa.

24. júlí 2007

11. september-kynslóðin

Ég tilheyri kynslóð sem hlotið hefur mörg nöfn en ekkert þeirra finnst mér hæfa. Sumir segja kynslóðina mína vera „þumalputtakynslóðina“, vegna komu leikjatölva og farsíma á okkar yngri árum, og aðrir segja mig hluta af „raunveruleikasjónvarpsþáttarkyn- slóðinni“. En það er bull. Jú, að sjálfsögðu spilaði ég tölvuleiki á Nintendo-leikjatölvum, það er einnig rétt að fyrstu nettu farsímarnir skutu upp kollinum þegar ég var í sjöunda bekk og það má vel vera að raunveruleikasjónvarp hafi komið fram á sjónarsviðið á ungdómsárum mínum, en ég get alls ekki sagt þessar tækni-/samfélagsframfarir (-afturfarir?) hafa einkennt unglingsár mín. Kannski hefur koma handhæga farsímans breytt lífi einhverra gelgja eða núverandi jeppaeigenda, en ég, líkt og flestir aðrir með eðlilega greinarvísitölu, lít aftur á móti á farsímann sem verkfæri/hjálpartæki og man ekki eftir neinni „borvéla-“ eða „ryksugukynslóð“ svona í fljótu bragði.

Það sem aftur á móti hefur einkennt menntaskólaár mín, mér til mikillar mæðu, eru árásirnar á tvíburaturnana, 11. september 2001. Faðir minn er af kynslóð sem getur stælt sig af því að vita hvar hún var stödd þegar tungllendingin átti sér stað, á meðan mín kynslóð er spurð hvar hún var þegar hún frétti af árásunum. (Enginn spyr sig þó hvar þeir voru þegar samgöngukerfi Madríd-borgar og Lundúna urðu að skotmörkum hryðjuverkamanna - það þykir mér verst að ég veit sjálfur ekki svarið við þeirri spurningu). Árásunum fylgdu tvö stríð Bandaríkjanna við vanþróuð lönd, mótmæli um allan heim (sem ég að sjálfsögðu tók þátt í; ungur og uppfullur af baráttuanda æskunnar), samsæriskenningar um hver bæri ábyrgð á árásunum, stuðningur ríkisstjórnar Íslands við seinna stríðið, birting afsökunarbréfs (sem ég held að ég hafi skrifað undir) íslensks afhafnafólks í bandarískum dagblöðum, vanfundur gereyðingarvopna í Írak, skopmyndir af Múhammeð spámanni og almennur ótti við hryðjuverk á vesturlöndum. Þessir atburðir settu svip sinn á unglingsár mín - árin þegar ég kynntist ástinni og settist með vinum niður á strönd, með bjór í hendi, til að fylgjast með sólarupprás eftir tryllt partí. Það væri því við hæfi að kalla mig og mína „hryðjuverkakynslóðina“ eða „11. september-kynslóðina“.

Ég get ekki einu sinni nefnt kynslóðina mína í höfuðið á einhverri framúrskarandi samtímahljómsveit (sbr. Bítlana og Bítlakynslóðina), þar sem kynslóð mín hefur ekki alið af sér neinar afspyrnuframúrstefnulegar sveitir (og þó...hvað með Spice Girls?), og það er engin ný tónlistarstefna ríkjandi í dag. Við íslenskir jafnaldrar mínir gætum reyndar kallað okkur „umhverfisverndarkynslóðina“, í kjölfar þess að í fyrsta sinn í sögu landsins er vitundarvakning meðal almennings á umhverfismálum (sem hefur svo leitt margan góðan drenginn út í öfgar og skemmdarverk). En það er bara ekki nógu svalt.

Úff, það er ekki auðvelt að vera kynslóðarlaus. Verst að nafnið kynslóð X skuli vera frátekið. Kannski væri það bara best að kalla sig hluta af „XX-kynslóðinni“, þar sem karllitningurinn er á undanhaldi...

13. júlí 2007

„Og hvað lærðir þú í dag, Jakob minn?“

Í gær fór ég í síðasta stærðifræðigreiningarfyrirlestur annarinnar og þar með seinasta stærðfræðigreiningarfyrirlestur náms míns (Guði sé lof). Í næstu viku hefjast svo hin skelfilegu Vordiplom-próf; á þriðjudaginn mun ég þurfa að heimsækja drekann, Prof. Dr. Manfred Salmhofer (sjá pistil um Seguleinpóla frá 24. júní), í helli hans. En nóg um það. Í gær var semsagt seinasti fyrirlestur minn í stærðfræði og í tilefni þessa sló dósentinn, Dr. Axel Schüler, á létta strengi og skrifaði m.a. eftirfarandi á töfluna:
Hvernig má það vera að „hin óskeikula stærðfræði“ skuli ala af sér slíka fásinnu? Er þetta rétt? Eða er eitthvert skref þessara útreikninga rangt? Að sjálfsögðu er þetta rangt og er villuna að finna við fyrsta jöfnumerkið. Það er nefnilega þannig að þegar kvarðarót er tekin fást tvær lausnir, ein neikvæð og hin jákvæð. Þetta kemur af því að andhverfa þess að setja eitthvað í annað veldi er einmitt kvarðarótin og fyrir veldisreikninginn gildir:
Á þessari jöfnu sést augljóslega að kvarðarótin af einum er ekki bara 1, heldur einnig -1, og þar með er deginum bjargað! ...Ég er farinn aftur að læra.

9. júlí 2007

Klisjukenndir

Ég las fyrir skömmu bókina „Skuggi vindsins“, eftir Carlos Ruiz Zafón, eftir að hafa verið hvattur til þess af vinum mínum í sumar, í lest nokkurri á leið til Búdapest. Í þessari lestarferð lásu þeir einmitt umrædda bók og héldu vart vatni, á meðan ég lét mér nægja lesningu á „Húsi andanna“. „Skuggi vindsins“ er ein af þessum bókum sem má kaupa á öllum bensínstöðvum landsins, en ég hef satt að segja ekki mikið álit á þeim bókum (dæmigerðar bensínstöðvabækur eru t.d. „Spæjarastofa númer eitt“ og „Sagan af Pí“ - allt saman meistaraverk bókmenntasögunnar í augum venjulegra hálfvita). Þó lét ég til leiðast og fyrir mánuði las ég blessaða bókina. Hún var ekkert svo slæm; mjög myndrænn en svolítið klisjukenndur Barselóna-reyfari.

Bók þessi gerði mig þó meðvitaðan um allar þær klisjukenndu aðstæður sem flestir gætu samsvarað sig við en líklega fæstir hafa upplifað í lifanda lífi. Það er svipað með þær og bragð rauðs, jarðarberjalaga hlaups; það halda því allir fram að það bragðist eins og jarðarber, en svo fer fjarri, þetta eru allt saman klisjur. Jarðarber eiga jafn lítið skylt með klisju-jarðarberjabragði hlaupsins og klisjukenndar aðstæður með lífinu á jörðinni. Samfélagið hefur þó komið á fót þessum gerviheimi, sem inniheldur allar helstu klisjur sem skynfæri okkar hafa komist í tæri við, og heldur þeim við með hjálp bragðefna og kvikmynda. Við meðtökum þennan heim jafnmikið og raunheiminn og grípum jafnvel til hans og klisjanna, þegar við lendum í aðstæðum sem við þekkjum ekki af reynslu. Hver hefur t.d. ekki sagt orðin „ég samhryggist“ við einhvern, þegar hann fréttir að þessi einhver hafi misst ástvin? Setning þessi er ekki lýsandi fyrir það sem í brjósti okkar býr en við höfum heyrt aðra nota hana við svipaðar aðstæður og því grípum við klisjuna á lofti.

Þessi kenning myndi líklega færa mér svarta beltið í heimspeki ef ekki væri fyrir það smáatriði að klisjukenndar aðstæður megi (þótt fáar séu) finna fyrir utan gerviheiminn - réttara sagt í raunheiminum. Ég vitna, máli mínu til stuðnings, í frásögn vinkonu minnar af dvöl hennar í Dresden, ásamt nokkrum sínum, seinasta vetur: eitthvert kvöldið, þegar þau gengu í frosti og snjó framhjá Frúarkirkjunni, sá hún hvernig blindur maður gekk upp að kirkjudyrunum, lagði rauðar rósir á tröppurnar og hvarf inn í snjóbylinn... Ef þetta er ekki klisja, þá veit ég ekki lengra.

4. júlí 2007

Eins gott að við búum í þrívíðum heimi

Við fórum í dag, í stærðfræðigreiningu, í lausnir bylgjujöfnurnar fyrir hinar ýmsu rúmvíddir. Ef einhver smellir fingrum, berst smellurinn í allar áttir í formi hljóðbylgju. Ef við stöndum í vegi fyrir þessari hljóðbylgju, heyrum við smellinn þegar bylgjan ferðast framhjá og hluti hennar skellur á hljóðhimnu okkar, en þegar hún ferðast áfram heyrum við smellinn ekki lengur. Þetta, að mörgu leiti, sjálfsagða fyrirbæri úr okkar daglega lífi er orsök þess að þrívíðar bylgjur eru settar saman úr svokölluðum fremri og aftari bylgjustafn (það má skiljast út frá kenningum Huygens en þrívíðar lausnir bylgjujöfnunnar lýsa einnig þessum bylgjustöfnum). Hljóðið, sem við upplifum sem fingrasmell, einkennist af þessum tveimur byljustöfnum en t.d. lengd þess ræðst af bilinu á milli þeirra. Þegar aftari bygjustafninn hefur farið fram hjá eyranu okkar, er aftur kyrrð; hljóðbylgjan er farin framhjá.

Þessu er öðruvísi farið með tvívíðar bylgjur, því þær hafa engan aftari bylgjustafn. Ef steini er kastað í vatn myndast hringbylgja, sem dreifir úr sér, en eftir smá stund myndast næsta bylgja í upphafspunkti þeirrar fyrstu, sem einnig dreifir úr sér, o.s.frv. Ef ekki væri fyrir viðnám vatnsins myndi þetta ferli endurtaka sig endalaust (þetta var fullyrðing fyrirlesarans, sem er stærðfræðingur og hefur ekki hundsvit á eðlisfræði, á meðan við eðlisfræðingarnir veltum vöngum yfir því hvort að slíkt fæli ekki í sér brot á lögmálinu um varðveislu orkunnar; persónulega held ég að sveiflurnar myndu dofna með tímanum, þar sem orka er flutt frá upphafspunkti bylgnanna). Hið sama væri upp á teningnum ef heimur okkar væri tvívíður; smellur, sem við myndum heyra frá smellandi fingrum, myndi aldrei hætta! Slíkt myndi þýða rosalega hljóðmengun, þar sem hvert hljóð (einnig öll ljósmerki) ættu sér engan endi.

Þess vegna er það bara ágætt, held ég, að heimur okkar sé þrívíður.

1. júlí 2007

Grill-eftirpartí

Í gærkvöldi heimsótti ég stærðfræðinginn Enno, til að flýja turtildúfurnar meðleigjanda minn og kærasta hennar, og unnum við að tónlistarvinnslu með hjálp hjóðgervils og tölvu. Þegar ég mætti sagði mér Enno þó frá einhverri grillveislu, sem samnemandi hans Eric (sá sem á yngri bróðirinn sem hélt því fram að talan hundrað væri hraðskreiðasta talan og að Guð væri dauður) hélt sama kvöld, svo að um miðnætti röltum við yfir til grillendanna. Þegar við komum, líklega um eittleitið, voru einungis Eric, brjálaði efnafræðingurinn Matz og franskur meðleigjandi Erics eftir á svæðinu. Það kom þó ekki að sök, því við höfðum það huggulegt og fengum okkur absinth (unaðslegur drykkur sem ég drekk allt of sjaldan). Þess má geta að kvöldið sem ég kynntist Matz enduðum við báðir í einhverjum almenningsgarðinum, sitjandi á bekk, drekkandi bjór á meðan Matz rifjaði upp óborganlega ferð sína til Tælands og Malasíu. Við höfðum verið í partíi hjá Ennoi og rökrætt úti á svölum um það hvort við myndum heldur, ef við stæðum með byssu fyrir framan besta vin okkar (sem einnig væri vopnaður), skjóta vin okkar eða verða skotnir af honum - annar hvor yrði að hleypa af, annars myndum við báðir láta lífið. Ég var þeirrar skoðunar að ég og Skúli (besti vinur minn) þekkjumst svo vel að við myndum báðir hugsa það sama og deyja frekar saman en að lifa án hins, en Matz var ekki viss. Matz er mjög hress náungi en nokkuð klikkaður og lætur ekki neinn segja sér fyrir verkum - það olli því eitt sinn að okkur var hent út úr svæsnustu knæpu Leipzigs, Die Knolle, sem mætti líkja við Kaffi Austurstræti á Íslandi (ekki spyrja hvað við höfðum þangað að sækja). En aftur að gærkvöldinu. Ég hafði skilið töskuna mína eftir hjá Enno, því hún var ansi þung, en þegar ég hélt heim á leið og stóð fyrir framan útidyrahurðina á götu Gogga svarta, tók ég eftir því að ég hafði gleymt lyklunum í töskunni! Ég varð því að hringja dyrabjöllunni og hrella turtildúfurnar úr ástarhreiðri sínu, sem þrátt fyrir allt hleyptu mér inn og erfðu þetta ekki frekar við mig.