31. mars 2008

Almenna afstæðiskenningin og Holland

Fyrir þremur vikum fór ég til smábæjarins Golm (sem er samvaxinn nágrannaborg Berlínar, Potsdam) og hlustaði þar í tvær vikur á fyrirlestra um hina almennu afstæðiskenningu Einsteins. Var þessi fyrirlestraröð í boði Max Planck-stofnunarútibús, sem sérhæfir sig í þyngdarafls-kenningum eðlisfræðinnar. Vinur minn, Enno Keßler, og annar stærðfræðingur frá Leipzig, Andreas Kübel - sem við félagarnir köllum alltaf bara Kübel; ég veit ekki af hverju en það er svolítið svalt og því mun ég gera slíkt hið sama hér á þessu bloggi - voru einnig í hópi þátttakenda (þess má til gamans geta að mannvitsbrekkurnar Enno og Kübel príða myndina hér að ofan). Ásamt gamals félaga Kübels, heitandi Falk og nemandi eðlisfræði við háskólann í Jena, vorum við rosalegur kvartett, sem hakkaði í sig námsefnið og heillaði kvenkyns bókasafnsverði með vitneskjuþorsta sínum (þetta eru engar ýkjur; Enno náði meira að segja að fá einn bókasafnsvörðinn til að bjóðast til að skanna inn heila skammtafræðibók inn fyrir hann og senda á stafrænu formi, ef hún kemst í leitirnar þ.e.a.s.). Ég gisti á huggulegum stúdentagarði í útjaðri Potsdam, en strákarnir bjuggu í Golm í eldgömlum austantjaldsblokkum - sem á örugglega eftir að rífa í náinni framtíð, en þangað til eru þær notaðar til að féfletta erlenda námsmenn - og þar sem húsakynni þeirra voru mun nær Max Planck-stofnuninni, heldur en mín, urðu þau að eins konar bækistöðvum okkar (og verða líka nefndar svo það sem eftir er færslu).

Við vorum samt ekki einu sendiherrarnir frá Leipzig, því tvær sætustu stúlkurnar úr árganginum mínum (sem eru reyndar lesbíur) og nokkrir ótrúlega klárir kollar heimsóttu líka umrædda fyrirlestraröð. Meðal þeirra var Max Gerlach (en hann er einmitt á myndinni hér til hliðar og á bak við hann má sjá glitta í Michael, frá Greifswald); ansi hress náungi sem fékk mig með sér, í einhverju ölæðinu, í viskísmökkun á stúdentabarnum Pub à la Pub, í Potsdam. Smökkuðum við á sex skoskum viskítegundum á degi hins heilaga Patreks (ég veit, út í hött), en báðir vorum við hrifnastir af hinum tíu ára gamla Talisker.

Eins og fæstir vita eru eðlisfræðingar mikil partídýr og eitt kvöldið var ákveðið að grilla og drekka bjór fyrir utan Max Planck-stofnunina (ég sver það, þetta fólk gerði allt fyrir okkur; þau hljóta að hafa verið einmana). Vafasamur hópur drengja tók af skarið og sá um skipulagningu gleðskaparins, en í forystu þeirra var gaur sem við kölluðum „brimbretta-kappann“. Hann var sólbrúnn, með ljósar strípur í hárlubbanum, og það vantaði aðeins ölduna undir hann (því miður tók ég enga mynd af honum). Hafði kvartettinn ógurlegi, sem minnst var á hér að ofan, á tilfinningunni að „brimbrettakappinn“ myndi aðeins kaupa Beck's-bjór (sem reyndist svo vera rétt!) og fékk því skemmtananefndina til að kaupa tvo kassa af hinu ódýra Stierbier (ísl. „Nautaöl“). Við byrjuðum að grilla klukkan hálffimm um eftirmiðdaginn, fyrsti bjórinn var opnaður klukkan fimm og klukkan tíu um kvöldið flosnaði samkoman upp. Við, kvartettinn, fórum ásamt Max, Michael, lessunum og kjánalegum gutta, sem annað hvort var skyldur annarri lesbíunni (stúlkan vinstra megin á myndinni) eða var að reyna við hana allt kvöldið, í bækistöðvarnar ásamt kassa af Nautaöli. Þar drukkum við áfram og var mikið sprell á fólki. Um tólfleytið fóru gestirnir með seinustu lestinni til Potsdam, en Falk (standandi fremst, hægramegin, á hópmyndinni) var sá eini í ástandi til að taka til eftir okkur. Næsta morgun vaknaði ég með einhverja verstu þynnku sem ég hef upplifað og vissi af hverju Nautaölið góða (sem Enno sýpur á hér að ofan) er svona ódýrt. Við skruppum til Berlínar og það var ekki fyrr en ég skellti í mig einum Mai Tai-kokkteil um kvöldið að höfuðverkurinn hvarf.

Á Skírdag kvöddum við partíbæinn Golm og fór ég yfir páskana til ömmu minnar og afa. Á annan í páskum fór ég svo með lest til Hollands, nánar tiltekið til Rotterdam, að hitta kærustu mína, Bergdísi, og vinkonu hennar, Ingu Auðbjörgu. Stúlkurnar tóku á móti mér með íslenska fánann á lofti og voru endurfundirnir ánægjulegir. Rotterdam er að mínu mati mjög töff borg, en eftir að gamli miðbærinn var eyðilagður í seinni heimsstyrjöldinni hefur nýstárleg byggingarlist yfirtekið miðborgina. Við Bergdís kynntumst skólafélögum Ingu og fórum með þeim á skemmtistaðinn Off Corso og á hollenskt „kaffihús“. Seinasta föstudag skruppum við svo til Amsterdam, röltum þar um miðbæinn og skelltum okkur á kynlífssafn, en okkur var svo boðið í mat til vinafólks þeirra vinkvennanna, í smábænum Leiden skammt frá Amsterdam, um kvöldið. Leiden er afskaplega notalegur smábær, sem er sem betur fer ekki eins túristasinnaður og Amsterdam, en ekki síðri þegar kemur að huggulegri byggingarlist og „pöbba“-úrvali. Það var æðislegt að sjá hana Bergdísi aftur og gaman að kynnast Hollandi; ég þakka henni Ingu hjartanlega fyrir góðar móttökur og góðar stundir á flatlendinu.

Þetta er búið að vera rosalegt fyrirlestrafrí. Á föstudaginn bíður mín hins vegar tilraunastofan, klukkan átta um morguninn, og á mánudaginn hefst alvara lífsins á ný...

6. mars 2008

Bankamál

Þetta átti ekki að vera erfitt verk; ég átti bara að tæma sparibaukinn, fara með klinkið í banka, láta skipta því í seðla og hypja mig. En þökk sé þýska bankakerfinu reyndist slíkt erfiðara en að segja það.

Ég og meðleigjendur mínir eigum lítinn sparigrís, sem stendur inni í eldhúsi, og er hann reglulega fylltur með smáaurum, sem enginn nennir að bera á sér og enginn hefur tíma til að nota í stórmörkuðum (fatlaða Evrópusamband; af hverju getum við ekki bara rúnað allt af eins og Danir gera?). Þessi sparigrís, sem líklega er ekki stærri en hnefinn á mér, varð á endanum fullur og bauðst ég í fyrradag að fara með baukinn í banka og tæma hann. Grísinn var ansi troðinn og þurfti ég að þræða hvern einasta smápening með hjálp borðhnífs út um lítið op á neðanverðum kvið hans. Ég fór með smápeningana í bankann minn, Deutsche Bank (sem er stærsti banki Þýskalands; skrýtið hvernig ég sækist alltaf í stærstu kapítalistana þegar kemur að bankaviðskiptum), en endaði í biðröð sem sig hvergi hrærði. Ástæðan voru einhverjar tvær stelpur sem aldrei ætluðu að klára viðskipti sín hjá gjaldkeranum; voru að skipta gjaldeyri, láta prenta eitthvað út, spurðu hvort bankinn ætti einhverja samstarfsbanka í Costa Rica o.s.frv. Eins og alltaf var bara einn gjaldkeri á vakt (það mætti leysa atvinnuleysisvanda Þýskalands á örskotsstundu ef þeir myndu bara drullast til að manna allar lausu stöðurnar í þjóðfélaginu) og eftir fimmtán mínútur gafst ég upp. Ég fór í næsta banka með klinkið, en þar sögðu sólbrúnir menn mér að þeir ættu ekki neina peningatalningavél og létu mig hafa peningarúllu-pappír, til að vefja klinkið í! Ég spurði hvort þetta væri einsdæmi eða hvort að slíkar vélar væru bara ekki til í þróunarlandinu Þýskalandi og kvaddi. Ég leitaði uppi þriðja bankann í þeirri von að þeir ættu peningatalningavél.

Að sjálfsögðu átti þriðji bankinn heldur ekki talningarvél en gjaldkerinn bauð mér að raða smápeningunum í eins konar talingagrind og saman rúlluðum við síðan klinkinu í skipulagðar peningarúllur að verðmæti 23,03€. Ég lét skipta ágóðanum í stóra seðla og heilar Evrur og fór heim með svarta putta, eftir að hafa handleikið milljón litla koparpeninga. Ég hlýt einnig að hafa hlotið þungmálmaeitrun, því í dag ligg ég heima í kör, þrælveikur.