4. nóvember 2013

Listin að skilgreina list

„Hvað er list?“ er spurning sem erfitt er að svara, þar sem það reynist næstum ómögulegt að finna sameiginlegan nefnara, einhver mörk fyrir alla þá list sem fyrirfinnst í heiminum. Sumar ganga meira að segja svo langt að halda því fram að allt sé list. Aftur á móti nær algjör skilgreining slíkrar afstæðishyggju ekki langt, þegar kúkur í dós er borin saman við Sálumessu Mozarts (og er reyndar hugsun sem dregur langan dilk á eftir sér, því hún gjaldfellir listamannalaun o.fl.). En hvenær hætta þá hlutir að vera óspennandi og venjulegir? Hvenær hættir kúkurinn að vera saur og rís upp á hið „æðra stig lista“?

Mikilvægt er að gera greinarmun á listinni og verkfærinu, þ.e.a.s. tækninni eða handverkinu, sem notað er til að skapa hana. Tæknina og handverkið má æfa; það er hægt að þjálfa skrift, teikningu og hæfileikann að spila á hljóðfæri, en það gerir engan sjálfkrafa að listamanni. Notast má við ritlist (sem að mati höfundar er eitt margra umræddra verkfæra sem sportar nokkuð misvísandi nafni) til að skrifa ritgerð eða grein, sem er hugsanlega vel skrifuð og kemur hugmyndum höfundar vel til skila, en getur verið gjörsamlega sneydd allri fagurfræði. Fáir myndu flokka tækniteikningu af rafrás, eða hringitón í síma sem list. Hins vegar verða öll þessi „verk“ til með hjálp verkfæra, sem á íslenskri tungu eru oftar en ekki kennd við list (ritlist, myndlist, tónlist, o.s.frv.). Skilja verður að tæknin eða handverkið er fyrst og fremst verkfæri þess sem kann að umgangast það og er í mörgum tilvikum hans lifibrauð.

Ef ofangreindur munur á list og verkfæri er gerður, fylgir því á mjög náttúrulegan hátt aðgreining á góðri og slæmri list. Slæm skáldsaga er álíka andrík og fræðigrein og tónar Leoncie eiga meira skylt við hringitón en hljómsveitina Radiohead. Þegar listamaðurinn gerir fátt annað en að sýna verklagni sína má oftar en ekki flokka list hans sem slæma. Sumir eru meira að segja bæði and- og hæfileikalausir, eins og einstaklingurinn á bak við verkið af kettinum Pétri hér að ofan, sem hýst er í hinu virta The museum of bad art (MOBA). Hvar draga skal mörkin er val hvers og eins, en skilin innan myndlistarinnar má hugsanlega finna með því að gera upp við sjálfan sig hvort að verk naívismans séu góð eða slæm. Ef ég mætti ráða, þá héngu fleiri naívísk verk á MOBA, en ég er víst ekki einn í heiminum…