Kæru lesendur,
Þessi tilraun til netskrifa er ekki sú fyrsta sem ég hef reynt, því áður var ég penni hjá vefritinu Dindli og í upphafi bloggvæðingar heimsins hélt ég úti ómerkilegri síðu sem hýsti undarlegt skopskyn grunnskólasjálfs míns. Einhvern daginn fékk ég svo leið á öllu saman eða fann aðra órökræna ástæðu til að hætta allri opinberri birtingu hugsana minna. Ég vona að þannig fari ekki fyrir þessari tímamótavefsíðu (sem að öllum líkindum mun týnast í hafróti veraldarvefsins) en fyrir skömmu vaknaði hjá mér viss ábyrgðartilfinning, vegna fjarveru minnar frá vinum og vandamönnum á Íslandi, sem hvatti mig til að opna öllum áhugasömum hliðin að daglegu lífi mínu. Það er því einlæg ósk mín að þetta stafræna afrit huga míns færi mig nær öllum þeim er mín sakna og fylli, að einu eða öðru leiti, upp í tómið sem ég hef skilið eftir í lífi þeirra.
Ég mun að stærstum hluta birta hér litlar hugleiðingar um lífið og tilveruna, samantektir á heilsufari mínu, þekkingarmola úr heimi vísindanna og hver veit nema ég láti ekki líka pólitískar skoðanir mínar hér í ljós. En sama hvað úr verður, þá fullvissa ég ykkur um að allt sem hér birtist verður meira en lítið áhugavert. Það verður réttara sagt stórkostlegt!
Ég óska ykkur góðrar skemmtunar og vona að þið njótið samverunnar með mér á tölvuskjánum.
Með fyrirfram þökk fyrir lesturinn,
Jakob Tómas Bullerjahn
14. júní 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Jakob minn, jakob hér. Líst helvíti vel á þetta hjá þér og svo er bara að vera duglegur að rita nokkur orð og birta með ekki of miklu millibili.
Annars veistu að þú er bestur og ég mun fylgjast með þér :)
Skrifa ummæli