6. mars 2008

Bankamál

Þetta átti ekki að vera erfitt verk; ég átti bara að tæma sparibaukinn, fara með klinkið í banka, láta skipta því í seðla og hypja mig. En þökk sé þýska bankakerfinu reyndist slíkt erfiðara en að segja það.

Ég og meðleigjendur mínir eigum lítinn sparigrís, sem stendur inni í eldhúsi, og er hann reglulega fylltur með smáaurum, sem enginn nennir að bera á sér og enginn hefur tíma til að nota í stórmörkuðum (fatlaða Evrópusamband; af hverju getum við ekki bara rúnað allt af eins og Danir gera?). Þessi sparigrís, sem líklega er ekki stærri en hnefinn á mér, varð á endanum fullur og bauðst ég í fyrradag að fara með baukinn í banka og tæma hann. Grísinn var ansi troðinn og þurfti ég að þræða hvern einasta smápening með hjálp borðhnífs út um lítið op á neðanverðum kvið hans. Ég fór með smápeningana í bankann minn, Deutsche Bank (sem er stærsti banki Þýskalands; skrýtið hvernig ég sækist alltaf í stærstu kapítalistana þegar kemur að bankaviðskiptum), en endaði í biðröð sem sig hvergi hrærði. Ástæðan voru einhverjar tvær stelpur sem aldrei ætluðu að klára viðskipti sín hjá gjaldkeranum; voru að skipta gjaldeyri, láta prenta eitthvað út, spurðu hvort bankinn ætti einhverja samstarfsbanka í Costa Rica o.s.frv. Eins og alltaf var bara einn gjaldkeri á vakt (það mætti leysa atvinnuleysisvanda Þýskalands á örskotsstundu ef þeir myndu bara drullast til að manna allar lausu stöðurnar í þjóðfélaginu) og eftir fimmtán mínútur gafst ég upp. Ég fór í næsta banka með klinkið, en þar sögðu sólbrúnir menn mér að þeir ættu ekki neina peningatalningavél og létu mig hafa peningarúllu-pappír, til að vefja klinkið í! Ég spurði hvort þetta væri einsdæmi eða hvort að slíkar vélar væru bara ekki til í þróunarlandinu Þýskalandi og kvaddi. Ég leitaði uppi þriðja bankann í þeirri von að þeir ættu peningatalningavél.

Að sjálfsögðu átti þriðji bankinn heldur ekki talningarvél en gjaldkerinn bauð mér að raða smápeningunum í eins konar talingagrind og saman rúlluðum við síðan klinkinu í skipulagðar peningarúllur að verðmæti 23,03€. Ég lét skipta ágóðanum í stóra seðla og heilar Evrur og fór heim með svarta putta, eftir að hafa handleikið milljón litla koparpeninga. Ég hlýt einnig að hafa hlotið þungmálmaeitrun, því í dag ligg ég heima í kör, þrælveikur.

5 ummæli:

Finnur Guðmundarson Olguson sagði...

23 evrur ! Jæja, þetta var alla vega þess virði. Nú getið þið keypt ykkur sameiginlegan geisladisk.

Unknown sagði...

Eða flösku af góðu rommi. Sem er nær lagi, þekki ég mitt heimafólk...

Dóri sagði...

Kæri vinur,

doridoridori.blogspot.com

Ásta sagði...

hummm....

Nafnlaus sagði...

Æji, enginn vakti mig með kaffibolla í morgun. Það var glatað.