21. apríl 2008

New Judas aftur í Leipzig

Á föstudaginn, eftir langan skóladag og nokkra spennuþrugna tíma fyrir framan tölvuskjá, kom ég heim um kvöldmatarleytið og var minntur á að um kvöldið myndu nokkrir liðsmenn New Judas-tónlistarhópsins (sem ætti að vera lesendum kunnugur úr fyrri færslum) troða upp á dansstaðnum SWEAT. Ég skellti mér í stórmarkaðinn, keypti bjór og fór síðar um kvöldið að sjá plötusnúðinn Downtown og raftónlistarmanninn Obi Blanche trylla gesti og barþjóna. Einnig steig þýska raf-pönk-indí-eitthvað sveitin MIT upp á stokk og spilaði sína vafasömu tóna, en þetta var hressandi kvöld og allir skemmtu sér konunglega.

Á laugardaginn var mér boðið í grillveislu til vinar míns Ennos. Það er ansi karlmannlegt að grilla, sérstaklega þegar maður drekkur bjór á meðan, en til að gera þetta allt saman enn karlmannlegra byrjuðum við á að smíða grill (við reyndar skrúfuðum bara tilbúna hluti saman eftir leiðbeiningum, en mér fannst sögnin „að smíða“ gera atburðinn örlítið tilkomumeiri). Þegar svo kom að því að grilla gufaði karlmennska okkur upp og vorum við sendir inn að skera grænmeti og leggja á borð, á meðan kærasta Ennos og meðleigjandi hans (einnig kvenkyns) sáu um að bera kjötmetið að eldinum. Það var kannski ekki alslæmt, því það byrjaði að rigna og erfiðara reyndist að halda grillinu gangandi en margan grunar. Um miðnætti skruppum við Enno síðan yfir í partí hjá félaga mínum, sem er frá Ísrael og heitir Hannan/Heinz (í þýsku vegabréfi sínu heitir hann Heinz, en í hinu ísraelska Hannan). Hann hélt upp á upphaf Pessach-viku - sem einkennist af því að gyðingar neita sér um allt kornmeti, til að minnast þess þegar Ísraelsþjóð flúði Egyptaland og hafði engan tíma til að láta brauð gerjast - og í tilefni af því var súpa, ísraelskt vín og vodka á boðstólnum. Við Enno vorum reyndar ekki sérlega koscher og drukkum bjór, en einhvern tímann um kvöldið, þegar ég hellti mér vodka (sem í Rússlandi er bruggaður úr kartöfluplöntum) í glas, sá ég að hann var danskur og las af flöskunni: „Premium Distilled 100% Grain Neutral Spirit“... Þegar ég benti Heinz á að hann hefði víst brotið reglur Pessach-hátíðarinnar, yppti hann öxlum og fékk sér annan vodkasopa.

Engin ummæli: