Ég var mikill myndasöguaðdáandi á árum áður, en á námsárum mínum datt þessi áhugi tímabundið uppfyrir. Það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum, sem ég gluggaði aftur í gömlu myndasögurnar mínar og hóf að fullkomna safnið. Fyrr á þessu ári fjárfesti ég svo í rosalegum doðranti, sem segir söguna af því þegar Ofurmennið, Superman, lést. Þessi saga var upphaflega gefin út árið 1992 og vakti mikla athygli hjá fjölmiðlum á sínum tíma (þegar ég var lítill átti ég úrklippu úr Morgunblaðinu, sem sýndi þekktar ofurhetjur bera líkkistu með hinu þekkta "S"-i ofaná; sjá mynd á vinstri hönd), enda ekki á hverjum degi sem elsta ofurhetja myndasagnanna gefur upp öndina.
Ofurmennið lést eftir að hafa barist við óstöðvandi skrímsli. Hann notaði sína seinustu krafta til að drepa skrímslið og dó hetjulegum dauðdaga í faðmi kærustu sinnar, Lois Lane. Í kjölfarið af andláti hetjunnar bláklæddu fylgdi mikil pólitísk deila um hvað ætti að gera við líkið hans; sumir vildu klóna Ofurmennið, á meðan aðrir vildu byggja átrúnaðargoði sínu grafhýsi og jafnvel altari. Það kom þó á daginn að Ofurmennið var alls ekki dautt, heldur áttu sér ákveðnir atburðir stað, sem í heild sinni eru of flóknir til að hægt sé að gera þeim skil hér, en leiddu að lokum til endurlífgunar hans. Þessi endurlífgun tók hins vegar heilt ár, svo að ofurhetjan upprisna sneri aftur með sítt og mikið hár.
Ofurmennið hlaut þar með möguleikann á að státa einni svölustu klippingu aldarfjórðungsins: síðu að aftan! Ekki minni menn en David Hasselhoff, sem gerði garðinn frægan sem strandvörðurinn Mitch Buchannon, báru þessa hárprýði með höfuðið hátt og sönnuðu fyrir heiminum að ekki einungis amerískir roðhnakkar (e. rednecks) gætu flaggað „mölletti“. Sítt að aftan er töff og praktískt, þar sem að hárið að framan mun aldrei skyggja sjón þess sem ber það, á meðan makkinn að aftan vermir hnakka hans á köldum vetrarkvöldum. Eins og gamall bolur minn orðar það: business in the front, party in the back!
11. október 2013
5. júlí 2010
Það er svo heitt!
Undanfarna daga er búið að vera óbærilega heitt í Þýskalandi. Hitastigið er í kringum bræðslumark hitamæla og þýska veðurstofan varar við mögulegum skógarbrunum, í kjölfarið. Lene Voigt-almenningsgarðurinn í Leipzig, sem liggur í nágrenni við heimili mitt, er allur sviðinn. Jafnvel þó það hafi rignt í nótt, virðist hitastigið samt ekki hafa breyst; enn blæs hlýju lofti úr suðri, á meðan sólin grillar saklaust mannfólkið. Ég er að stikna.
28. júní 2010
Ekki missa af Þorvaldi!

Dvölin vestan Atlandshafs hefur ekki aðeins auðgað listnæmi hans, heldur einnig innsæi í gang heimsmálanna; hann heldur með þýska landsliðinu, á heimsmeistaramótinu í fótbolta, því „það er best fyrir hið alþjóðlega hagkerfi, ef að Þýskaland verður heimsmeistari“. Seðlabanki Íslands beinir nú sjónum sínum til þessa unga og efnilega pilts, því þeir gætu séð hag sinn í því að fá svona skarpan og myndarlegan mann, með góða enskukunnáttu, í sínar raðir. Og ekki skemmir fyrir að hann gæti troðið upp á starfsmannauppákomum. Áfram Þorvaldur og áfram Þýskaland!
6. janúar 2009
Það er svo kalt!
Í morgun voru -19°C hér í Leipzig og yfir daginn verður það lítið skárra. Fjölmiðlar segja nóttina hafa verið eina þá köldustu hér í Þýskalandi, síðan 1987, en einna kaldast var það í kringum Leipzig; í nágranna-bænum Delitzsch féll kvikasilfurssúlan niður í -26°C! Í Hamborg voru rútur sendar út til að taka heimilislausa af götunum og flytja þá í hlýja íþróttahöll. Í Weimar fraus eldri kona í hel. Lestum og flugvélum hefur seinkað vegna hins gífurlega kulda en á morgun á ástandið að skána, samkvæmt veðurspánni. Þangað til skokka ég á staðnum til að halda á mér hita.
31. desember 2008
Blogg-annáll Bullerjahns 2008

Árið byrjaði aðfararnótt nýársdags, þegar ég kynntist Bergdísi Ingu (fyrir miðju á myndinni hér að ofan) í trylltu áramótapartýi hjá Eyþóri Páli (neðst til vinstri á myndinni). Nokkrum dögum seinna varð ég hins vegar að snúa aftur til Þýskalands og við sáumst ekki aftur fyrr en í vorfríi mínu í febrúar.

Ég vona að árið 2009 verði jafn spennandi og það sem nú er að líða. Ég vil óska öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og gæfu og velgengni á nýju ári. Lifið heil.
16. desember 2008
...af því að það eru jól
Jólaundirbúningurinn tröllríður hinum vestræna heimi þessa dagana. Það má þó ekki gleymast í glundroðanum að hlusta á góð jólalög inn á milli og því ákvað ég að taka saman nokkra klassíska jólapoppsmelli, til að bræða hjörtu neytenda og þerra tár áhættufjárfesta. Fyrir neðan má finna þrjá smelli sem eru tilvaldir til að hlusta á í skammdeginu; við bjartan bjarmann af brennandi, nú verðlausum, hlutabréfum.
Band Aid - Do They Know It's Christmas?
David Bowie & Bing Crosby - Little Drummer Boy
Nat King Cole - The Christmas Song
Ég kem heim að kvöldi, þann 19. desember. Sjáumst þá. Gleðileg jól.
Band Aid - Do They Know It's Christmas?
David Bowie & Bing Crosby - Little Drummer Boy
Nat King Cole - The Christmas Song
Ég kem heim að kvöldi, þann 19. desember. Sjáumst þá. Gleðileg jól.
24. október 2008
Heilabrot No.2
Ef ég helli helming innihaldsins úr vatnsflösku, sem hefur staðið nógu lengi til að vera í varmafræðilegu jafnvægi (þ.e.a.s. varmi vatnins er jafnt dreifður á allt innihaldið), í aðra flösku enda ég uppi með tvær vatnsflöskur með sama varma og mólfjölda. Ef ég aftur á móti klíf nifteindastjörnu (hvernig sem ég fer að því) - dæmigerðar stærðir fyrir massa nifteindastjarna eru m = 1,3 - 2,1 msólin - er ólíklegt að ég endi uppi með tvær jafnþungar nifteindastjörnur. Nifteindirnar gætu t.a.m. klofnað í róteindir og rafeindir og báðir helmingar stjörnunnar gætu orðið að hvítum dvergum. Ég er samt ekki alveg viss.
Viðbót: Ég hef fengið nokkrar kvartanir þess efnis að hugleiðingin hér að ofan sé svolítið torskilin - ef ekki óskilin. Ég viðurkenni að ég hafi ekki nefnt þá staðreynd að nifteindastjarna myndast þegar kjarni sprengistjörnu (e. Supernova) hrynur saman, með þeim afleiðingum að rafeindir frumeindanna skella inn í frumeindakjarnana og mynda með róteindum þeirra nifteindir. Þrýstingur nifteindanna gagnvart þrýstingi þyngdaraflsins kemur í veg fyrir að stjarnan hrynji enn frekar saman (og myndi svarthol eða eitthvað enn óþekkt), en það myndi gerast ef kjarninn væri massameiri en sem nemur m = mVolkoff-Oppenheimer = 1,5 - 3 msólin. Þótti mér óþarft að nefna að ef massi nifteindastjörnurnnar myndi minnka - t.d. ef hún yrði klofin í tvennt - þá væri þrýstingur nfiteindanna mun meiri en þyngdaraflsins og nifteindastjarnan óstöðug (massinn væri minni en dæmigerður massi nifteindastjarna, m = 1,3 - 2,1 msólin, eins og fram kemur að ofan); hún myndi kannski verða að hvítum dvergi, kannski ekki. Óvissan liggur í því að nifteindastjarnan verður til við sprengingu sprengistjörnu, en klofningurinn umræddi jafnast ekki á við öfugt ferli stjörnusprengingar (hvað sem það nú er).
Viðbót: Ég hef fengið nokkrar kvartanir þess efnis að hugleiðingin hér að ofan sé svolítið torskilin - ef ekki óskilin. Ég viðurkenni að ég hafi ekki nefnt þá staðreynd að nifteindastjarna myndast þegar kjarni sprengistjörnu (e. Supernova) hrynur saman, með þeim afleiðingum að rafeindir frumeindanna skella inn í frumeindakjarnana og mynda með róteindum þeirra nifteindir. Þrýstingur nifteindanna gagnvart þrýstingi þyngdaraflsins kemur í veg fyrir að stjarnan hrynji enn frekar saman (og myndi svarthol eða eitthvað enn óþekkt), en það myndi gerast ef kjarninn væri massameiri en sem nemur m = mVolkoff-Oppenheimer = 1,5 - 3 msólin. Þótti mér óþarft að nefna að ef massi nifteindastjörnurnnar myndi minnka - t.d. ef hún yrði klofin í tvennt - þá væri þrýstingur nfiteindanna mun meiri en þyngdaraflsins og nifteindastjarnan óstöðug (massinn væri minni en dæmigerður massi nifteindastjarna, m = 1,3 - 2,1 msólin, eins og fram kemur að ofan); hún myndi kannski verða að hvítum dvergi, kannski ekki. Óvissan liggur í því að nifteindastjarnan verður til við sprengingu sprengistjörnu, en klofningurinn umræddi jafnast ekki á við öfugt ferli stjörnusprengingar (hvað sem það nú er).
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)