Það gerist ekki oft en af og til kíki ég inn í aukafyrirlestrana, sem haldnir eru hjá okkur í eðlisfræðiskorinni, en vanalega eru þessir fyrirlestrar háfræðilegir og yngstu námsmennirnir skilja hvorki upp né niður í þeim. Þó má stöku sinnum finna skiljanlega fyrirlestra og í þá mæti ég - sérstaklega þegar þeir snúast um mál sem eru mér hugleik, t.d. um nauðsyn Guðs í heimsmynd eðlisfræðinnar í dag. Fyrir nokkru heimsótti ég fyrirlestur um fegurðarmat, þegar kemur að vísindum og listum, og var hann haldinn af hinum geðþekka Prof. Dr. Dr. h.c. Hermann Schmalzried, eðlisfræðingi og listmálara. Þessi fyrirlestur var svolítið á heimspekilegu nótunum og reyndist tormeltari en ég hélt í fyrstu; stöðugt vitnaði fyrirlesarinn í Kant og kenningar hans en eftir á vakti fyrirlesturinn margar áhugaverðar spurningar, sem ég mun reyna að gera skil á hér að neðan.
Prof. Schmalzried skoðaði listina, annars vegar, og vísindin, hins vegar, út frá hugtökunum fegurð og framför. Nokkuð augljóst þykir að hægt sé að tala um framför í vísindum, þar sem vísindin snúast um að auka þekkingu okkar. T.a.m. ef tákna mætti þekkingu mannkyns með kúlulaga mengi, og allt sem fyrir utan það lægi væri okkur óþekkt, þá myndu framfarir þýða stækkun á þvermáli þessarar kúlu. Með vaxandi rúmmáli mengisins myndi einnig yfirborð kúlunnar, „snertiflötur hins óþekkta“ eða „mengi allra vandamála sem við skiljum ekki“, stækka - m.ö.o. þeim mun meiri sem þekking okkar verður, þeim mun fleira kemur í ljós sem við ekki skiljum. En hvað með listina? Er í raun hægt að tala um framför á hennar sviðum? Ef svo væri, væri t.d. hægt að kalla póstmódernisma þróaðri listastefnu heldur en módernismann en hver heilvita maður sér að slíkt er ekki aðeins galið, heldur algjörlega snælduvitlaust! Og þegar maður skoðar hugtakið list, eða öllu heldur hugmyndir heimspekinga um þetta umdeilda hugtak, má sjá ákveðinn rauðan þráð: listin lýsir manninum (enda er hún sköpunarverk hans). Og breytist maðurinn eitthvað? Eiga sér framför í sálarkynnum manna? Fyrirlesarinn var nokkuð á báðum áttum, fannst mér, því annars vegar benti hann á að fegurðarmat karla á konum hefur breyst með árunum - áður þóttu holdmiklar konur fengilegar, en þær gátu átt mörg börn, svo greinilegt er að þá réðu eðlishvatirnar ríkjum en nú verða konur stöðugt grennri við mikil fagnaðarhróp karla - en hins vegar benti hann á að mannkynið er enn við sama heygarðshornið - líf okkar byggist í dag, líkt og áður fyrr, á að uppfylla grunnþarfir okkar. Ef maðurinn hefur ekki breyst, ætti þá lýsingin á honum að hafa bæst eitthvað?
Hvað fegurðina varðar, þá er hún nokkuð loðið hugtak. Í raun er ekki til nein skilgreining á henni, þar sem hún er einstaklingsbundin og stundum einnig tímaháð. Prof. Schmalzried var þeirrar skoðunar að innan vísindanna væri ekki hægt að tala um fegurð. Hann m.a. benti á að kvenfuglar, á mökunartímanum, hrífast ekki af fjölskrúðugum fjaðraham karlfuglanna vegna fegurðar þeirra, heldur vegna þess að hann er tákn um hreysti. Náttúran kann að innihalda ýmis fyrirbæri, sem okkur mönnunum þykja falleg, en tilgangur þeirra er ekki að skapa fegurð (ef yfir höfuð mætti tala um tilgang einhvers sem við ekki skiljum); náttúrulögmálin eru eins og þau eru, því ef þau væru öðruvísi gæti að öllum líkindum ekki þróast neitt líf í alheiminum. Einhverjum gæti kannski þótt náttúran falleg en í sjálfu sér er hún það ekki. Fegurðin aftur á móti er hugtak, ættað frá mannkyninu, og þar sem eins er farið með listina má vel fullyrða að hún geti innihaldið hana. Eftir fyrirlesturinn bauðst gestum að spyrja spurninga og endaði það í því að aldraðir gestirnir skeggræddu við áttræðan fyrirlesarann um persónulegt fegðurðarmat hvers og eins - af hverju, ef einhverjum þætti náttúran falleg, gæti hún þá ekki verið falleg - en Prof. Schmalzried svaraði með þeim orðum að „þá þyrfti að skilgreina fegurðina“.
22. júní 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
The quality that gives plesure to the mind or senses and is associated with such properties as harmony of form or color, exellence of artistry, turthfulness and originality
Jakob, ég og þú... við vitum hvað fegurðin er.
Mikið gleðiefni að þú skulir aftur vera farinn að skrifa á veraldarvefinn!
Í sambandi við fegurðina verð ég (líkt fyrirlestrargestir) að vera ósammála hinum margfalda doktor Schmalzried... ég held þvert á móti að varla sé hægt að skilgreina hana.
Skrifa ummæli