26. júlí 2007

Apaplánetan

Fyrirsögnin lofar góðu; þessi pistill er áreiðanlega hörð ádeila á neyslusamfélagið, sem letur til sjálfstæðrar hugsunar og þaggar niður í almenningi með gylliboðum útsala. Rangt. Ég mun einungis fjalla um kvikmyndina Apaplánetan (Planet Of The Apes), endurgerð hennar og leikarann Mark Wahlberg.

Ég er einn af þeim sem aldrei vissu af skuggahlið Marks, fyrr en nú fyrir skömmu. Þannig er nefnilega í pottinn búið að Mark Wahlberg var rappari, á tíunda áratugnum, og kallaði sig Marky Mark. Ásamt The Funky Bunch átti hann nokkra smelli, en vinsælasta lag hans er án efa smellurinn Good Vibrations. Myndbandið við það lag er að finna hér að neðan (takið eftir atriðinu þegar hann hendir steypulóðunum í jörðina, með þeim afleiðingum að þau brotna. Mjög hart):

Mark lék í endurgerð kvikmyndarinnar Apaplánetan, í leikstjórn Tim Burtons, sem hlaut fremur dræmar viðtökur, en mér fannst hún hreinlega geðveik. Flestum fannst endir myndarinnar stórundarlegur, en hann víkur frá endi upprunalegu myndarinnar - í stað þess að geimfarinn Roger Taylor finni leifar frelsisstyttunnar á ströndinni kemst persóna Marks (Leo Davidson) aftur til framtíðar, en sér til mikillar skelfingar endar hann í Washington-borg búsettri öpum! Ég skildi aldrei viðbrögð áhorfenda, sem yfirgáfu kvikmyndasalinn fussandi og sveiandi, þar sem kvikmyndin var endurgerð rúmlega 30 ára gamals verks. Að sjálfsögðu var pólitískt landslag sjöunda áratugarins allt annað en núna um aldarmótin og nýir tímar kalla á nýjar lausnir. Ég veit hreinlega ekki við hverju kvikmyndahússgestir bjuggust; var það í alvörunni trú þeirra að kvikmyndin yrði nákvæm eftirmynd fyrirrennara síns? Hver er þá tilgangurinn með því að endurgera myndir? Snúast endurgerðir bara um að bæta sjónrænt gildi eldri mynda eða felst kannski einnig í þeim einhver sköpun? Er það ekki annað en sjálfsagt að listamaðurinn fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri? Er það ekki einmitt þess vegna sem hann ákveður að endurvinna verk annarra?

Það er trú mín að kvikmyndagerðarmenn, fyrst þeir eru á annað borð að endurgera myndir fortíðar, eigi að leggja sitt af mörkum og staðfæra boðskap upphaflegu verkanna. Upprunaleg útgáfa Apaplánetunnar kom út á tímum Kalda stríðsins og var ádeila á kjarnorkuvána, sem hvíldi yfir Vesturlöndum. Í dag er öldin þó önnur (21. öldin, sko) og martraðir Bandaríkjamanna snúast um heimsyfirráð hryðjuverkamanna og fyrrum einvalda Mesópótamíu. Tökum nýju Apaplánetuna í sátt, jafnvel þótt Mark Wahlberg sé leiðinlegur leikari, og fögnum því að við séum ekki þrælar apa.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært lag og myndband, Marky Mark hefði betur haldið sig alfarið við músíkina þar sem hæfileikar hans fá sín greinlega notið til fullnustu.

Unknown sagði...

Feitt video. Er ekki málið að Mark skrifi svosem eins og eitt kvikmyndahandrit og geri mynd svo við fáum Purple Rain nýrrar aldar? 8 mile yrði bara saur í samanburði.

...og farðu nú að blogga um ævintýri þín, senjor B'jahn.

Ásta sagði...

Já!! Skúli þetta er klárlega málið. Eigum við að senda honum bréf og reyna að sannfæra hann um þetta???

Ég tek undir með Skúla.... við viljum heyra um ævintýri og hetjudáðir Senjor B'jahns!!