24. júlí 2007

11. september-kynslóðin

Ég tilheyri kynslóð sem hlotið hefur mörg nöfn en ekkert þeirra finnst mér hæfa. Sumir segja kynslóðina mína vera „þumalputtakynslóðina“, vegna komu leikjatölva og farsíma á okkar yngri árum, og aðrir segja mig hluta af „raunveruleikasjónvarpsþáttarkyn- slóðinni“. En það er bull. Jú, að sjálfsögðu spilaði ég tölvuleiki á Nintendo-leikjatölvum, það er einnig rétt að fyrstu nettu farsímarnir skutu upp kollinum þegar ég var í sjöunda bekk og það má vel vera að raunveruleikasjónvarp hafi komið fram á sjónarsviðið á ungdómsárum mínum, en ég get alls ekki sagt þessar tækni-/samfélagsframfarir (-afturfarir?) hafa einkennt unglingsár mín. Kannski hefur koma handhæga farsímans breytt lífi einhverra gelgja eða núverandi jeppaeigenda, en ég, líkt og flestir aðrir með eðlilega greinarvísitölu, lít aftur á móti á farsímann sem verkfæri/hjálpartæki og man ekki eftir neinni „borvéla-“ eða „ryksugukynslóð“ svona í fljótu bragði.

Það sem aftur á móti hefur einkennt menntaskólaár mín, mér til mikillar mæðu, eru árásirnar á tvíburaturnana, 11. september 2001. Faðir minn er af kynslóð sem getur stælt sig af því að vita hvar hún var stödd þegar tungllendingin átti sér stað, á meðan mín kynslóð er spurð hvar hún var þegar hún frétti af árásunum. (Enginn spyr sig þó hvar þeir voru þegar samgöngukerfi Madríd-borgar og Lundúna urðu að skotmörkum hryðjuverkamanna - það þykir mér verst að ég veit sjálfur ekki svarið við þeirri spurningu). Árásunum fylgdu tvö stríð Bandaríkjanna við vanþróuð lönd, mótmæli um allan heim (sem ég að sjálfsögðu tók þátt í; ungur og uppfullur af baráttuanda æskunnar), samsæriskenningar um hver bæri ábyrgð á árásunum, stuðningur ríkisstjórnar Íslands við seinna stríðið, birting afsökunarbréfs (sem ég held að ég hafi skrifað undir) íslensks afhafnafólks í bandarískum dagblöðum, vanfundur gereyðingarvopna í Írak, skopmyndir af Múhammeð spámanni og almennur ótti við hryðjuverk á vesturlöndum. Þessir atburðir settu svip sinn á unglingsár mín - árin þegar ég kynntist ástinni og settist með vinum niður á strönd, með bjór í hendi, til að fylgjast með sólarupprás eftir tryllt partí. Það væri því við hæfi að kalla mig og mína „hryðjuverkakynslóðina“ eða „11. september-kynslóðina“.

Ég get ekki einu sinni nefnt kynslóðina mína í höfuðið á einhverri framúrskarandi samtímahljómsveit (sbr. Bítlana og Bítlakynslóðina), þar sem kynslóð mín hefur ekki alið af sér neinar afspyrnuframúrstefnulegar sveitir (og þó...hvað með Spice Girls?), og það er engin ný tónlistarstefna ríkjandi í dag. Við íslenskir jafnaldrar mínir gætum reyndar kallað okkur „umhverfisverndarkynslóðina“, í kjölfar þess að í fyrsta sinn í sögu landsins er vitundarvakning meðal almennings á umhverfismálum (sem hefur svo leitt margan góðan drenginn út í öfgar og skemmdarverk). En það er bara ekki nógu svalt.

Úff, það er ekki auðvelt að vera kynslóðarlaus. Verst að nafnið kynslóð X skuli vera frátekið. Kannski væri það bara best að kalla sig hluta af „XX-kynslóðinni“, þar sem karllitningurinn er á undanhaldi...

2 ummæli:

Unknown sagði...

Já, það er nokkuð til í þessu hjá þér. Jafnvel spurning hvort við erum "hryðjuverkakynslóðin"? Generation Terror...

Jakob Tómas Bullerjahn sagði...

Já. Hvað kallast annars þessi minnisvarði sem byggja á á „Ground Zero“? The Terror Dome?