1. júlí 2007

Grill-eftirpartí

Í gærkvöldi heimsótti ég stærðfræðinginn Enno, til að flýja turtildúfurnar meðleigjanda minn og kærasta hennar, og unnum við að tónlistarvinnslu með hjálp hjóðgervils og tölvu. Þegar ég mætti sagði mér Enno þó frá einhverri grillveislu, sem samnemandi hans Eric (sá sem á yngri bróðirinn sem hélt því fram að talan hundrað væri hraðskreiðasta talan og að Guð væri dauður) hélt sama kvöld, svo að um miðnætti röltum við yfir til grillendanna. Þegar við komum, líklega um eittleitið, voru einungis Eric, brjálaði efnafræðingurinn Matz og franskur meðleigjandi Erics eftir á svæðinu. Það kom þó ekki að sök, því við höfðum það huggulegt og fengum okkur absinth (unaðslegur drykkur sem ég drekk allt of sjaldan). Þess má geta að kvöldið sem ég kynntist Matz enduðum við báðir í einhverjum almenningsgarðinum, sitjandi á bekk, drekkandi bjór á meðan Matz rifjaði upp óborganlega ferð sína til Tælands og Malasíu. Við höfðum verið í partíi hjá Ennoi og rökrætt úti á svölum um það hvort við myndum heldur, ef við stæðum með byssu fyrir framan besta vin okkar (sem einnig væri vopnaður), skjóta vin okkar eða verða skotnir af honum - annar hvor yrði að hleypa af, annars myndum við báðir láta lífið. Ég var þeirrar skoðunar að ég og Skúli (besti vinur minn) þekkjumst svo vel að við myndum báðir hugsa það sama og deyja frekar saman en að lifa án hins, en Matz var ekki viss. Matz er mjög hress náungi en nokkuð klikkaður og lætur ekki neinn segja sér fyrir verkum - það olli því eitt sinn að okkur var hent út úr svæsnustu knæpu Leipzigs, Die Knolle, sem mætti líkja við Kaffi Austurstræti á Íslandi (ekki spyrja hvað við höfðum þangað að sækja). En aftur að gærkvöldinu. Ég hafði skilið töskuna mína eftir hjá Enno, því hún var ansi þung, en þegar ég hélt heim á leið og stóð fyrir framan útidyrahurðina á götu Gogga svarta, tók ég eftir því að ég hafði gleymt lyklunum í töskunni! Ég varð því að hringja dyrabjöllunni og hrella turtildúfurnar úr ástarhreiðri sínu, sem þrátt fyrir allt hleyptu mér inn og erfðu þetta ekki frekar við mig.

1 ummæli:

Unknown sagði...

*Slær krepptum hnefa tvívegis þéttingsfast á vinstra brjóst, í hjartastað, og kinkar kolli.*