Ég ber mikla virðingu fyrir mönnum sem fylgja sannfæringu sinni. Sérstaklega ef þeir trúa á glataðan boðskap en reynast of þrjóskir til að gefast upp. Sem dæmi um slíka einstaklinga má nefna þá sem hallast að jarðmiðjukenningunni eða trúa á flata jörð. Þessir einstaklingar hafa að mínu mati ekki endilega rangt fyrir sér - þar sem jörðin er frá okkar sjónarhorni flöt og út frá almennu afstæði má segja jörðina, í okkar hnitakerfi, miðju alheimsins - en þeir hafa bara ekki eins mikið rétt fyrir sér eins og við hin.
Ofannefndar hugmyndir haldast á floti með hjálp trúarbragða. T.a.m. má nefna Flatjarðarfélagið (The Flat Earth Society), en það var stofnað af fróma uppfinningamanninum Samuel Rowbotham á 19. öld í Englandi. Einhver kirkjan í Bandaríkjunum tók hugmyndir hans upp, þ.e. að heimurinn væri skífa með norðurpólinn fyrir miðju en við endimörk hennar kæmu háir ísveggir í veg fyrir að einhver dytti fram af jörðinni, og vörðu þessir trúarofstækishópar hugmyndir sínar með kjafti og klóm (sérstaklega á sjötta áratugnum, þegar fyrstu myndir gervitungla af jörðinni utan úr geimnum komu til jarðar). Nú kunna margir að hlæja að þessari vitleysu - hvernig getur fólk tekið úreltar hugmyndir svona alvarlegar - en sannleikurinn er sá að flestir jarðarbúar búa við ranghugmyndir. Hversu margir trúa því að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi staðið á bak við hryðjuverkaárásirnar 11. september? Hversu margir afneita þeirri staðreynd að mannkynið hefur stigið fæti á tunglið? Hversu margir trúa því að samfarir með hreinum meyjum lækni eyðnisjúkdóminn? Hversu margir trúa því að Elvis sé enn á lífi? Taka skal eftir því að engin heilvita vísindamaður hefur nokkurn tímann talað með ofantöldum kenningum en það virðist ekki trufla þorra mannkyns. Við erum nautheimsk.
„Í sannleikanum leynist sigurinn“ eru orð að sönnu, en eins og staðan er í dag eru vinningslíkur okkar ekki sérlega góðar. En ég ber virðingu fyrir þeim sem fylgja sannfæringu sinni - neita að gefa glataðan málstaðinn upp á bátinn - þar sem ég trúi því að þessir einstaklingar séu mjög hamingjusamir. Í sínum eigin alheimi stefna þessir einstaklingar að einhverju guðdómlegu takmarki, á meðan við hin ráfum stefnulaust um (gersamlega yfirbuguð út af þeirri staðreynd að engan síréttan sannleik sé að finna) og skolumst loks burt í hafróti tímans... Er það þess virði að sóa lífi sínu í minnimáttarkennd yfir stöðu okkar innan alheimsins?
Að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.
29. júní 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Karþagó í Illinois eða í Maine?
Bara bæði...
Skrifa ummæli