Ég lenti í því veseni, í þar seinustu viku, að annar pedalinn á hjólinu mínu losnaði. Ástæðan var sú að skrúfgangurinn, sem pedalinn var skrúfaður í, var orðinn jaskaður og því sendi ég hjólið mitt í viðgerð seinasta fimmtudag. Skorinn var nýr skrúfgangur í stöngina, sem pedalinn er skrúfaður inn í, og millistykki milli pedala og stangar komið fyrir. Ég fékk hjólið aftur á föstudegi, hjólaði niður í bæ og keypti afmælisgjöf handa meðleigjana mínum, Claudiu, en hún átti afmæli á laugardaginn. Um kvöldið skrapp ég svo í eitthvað partí, hjá nágranna stærðfræðingsins Erics (hann virðist búa í einhvers konar „partíhúsi“ þar sem allir þekkjast og halda stöðugt partí - sem öllum er boðið í), að sjálfsögðu á hjóli. Á miðri leið losnaði pedalinn hins vegar aftur; ég reyndi að hjóla eins langt og ég gat, á laflausu fótstiginu, en á endanum losnaði hann alveg af og þurfti ég að ganga seinasta spölinn. Enno var á leiðinni heim þegar ég komst pedalalaus á leiðarenda, svo Eric varð drykkjufélagi minn í þessu partíi.
Um hálffimmleytið var Eric orðinn svo fullur að hann rakst utan í allt sem fyrir varð og henti glóandi sígarettum á parketlagt gólfið, þegar honum fannst hann hafa fengið nóg. Hann fór að tala um fyrrverandi kærustuna sína, sem hafði víst haldið fram hjá honum og hætt svo með honum rétt fyrir eitthvert lokaprófið hans, og kallaði hana „litla mellu“. Ég fór með hann út, svo hann gæti andað að sér fersku lofti, kom honum í rúmið og labbaði heim með hjól og pedala í farteskinu.
Næsta dag vaknaði ég eldhress, klukkan hálfellefu um morguninn, og um kvöldið fengum við gesti til okkar í heimsókn. Drukkið var romm, í kóklíki og limesafa, bjór og vín. Ég endaði um fimmleytið í eldhúsinu, skeggræðandi siðferði þess að sýna sundurskorin lík almenningi (sjá sýninguna Körperwelten hér í Þýskalandi).
Á mánudaginn fór ég svo aftur með hjólið mitt aftur í viðgerð og fékk ég það aftur í hendurnar í gær. Ég er að fara niður í bæ í kvöld, á hjóli, og vonast til að komast með báða pedala heim aftur.
21. nóvember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli