2. febrúar 2008
New Judas í Leipzig
Í gær var seinasti fyrirlesturinn minn á þessari önn og þar sem ég kláraði seinasta prófið mitt á fimmtudaginn er ég hér með laus og liðugur (a.m.k. fram að næstu önn). Í tilefni af því fór ég í gær á skrallið. Kvöldið byrjaði reyndar á því að elda kínverskan hrísgrjónarétt, saman með gestum okkar - vinkonu Claudiu og Kristinar frá Magdeburg (sem kíkti óvænt í heimsókn í gær), kærasta hennar (sem kom á fimmtudaginn í íbúðarleit og gisti hjá okkur) og skólafélaga Kristinar í kínverskunni. Maturinn var vægast sagt sterkur en Kristin, sem hafði skorið piparinn í réttinn, sveið það sem eftir var kvölds í hendinni. Ég skildi við gamlingjana (þ.e.a.s. tuttuguogfimm-ára-og-eldri-krúið) og fór með litlu systur Claudiu, meðleigjanda hennar og öðru liði á skemmtistaðinn SWEAT (ísl. „Sviti“) að sjá nokkra plötusnúða New Judas hópsins þeyta skífum. Hópur þessi er frá Finnlandi, en vaxtarræktartröllið Huoratron og stúlknatvíeykið Les Gillettes (reyndar aðeins önnur þeirra, sem var rosa krúttleg með stóru heyrnartólin sín og virtist svolítið óörugg en skemmti sér greinilega) úr röðum þeirra spiluðu í gærkvöldi fyrir dansi. Partí-Jakob dansaði eins og hann átti lífið að leysa, hélt síðan sáttur heim á leið og endaði heima í eldhúspartíi sem entist til klukkan hálf átta um morguninn. Núna er ég þunnur og ætla að fá mér kaffi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
góð saga... og mönnum til fróðleiks þýðir huora hóra á finnsku.
Skrifa ummæli