Á fimmtudaginn héldu eðlisfræðingar í Leipzig sumarhátíð sína (veðurfræðingarnir máttu slást í för með okkur) og í tilefni dagsins var keppt í hinum og þessum íþróttagreinum, drukkinn bjór, steikur og pylsur grillaðar og á endanum borðaðar. Hátíð þessi var haldin í almenningsgarði nokkrum, sem liggur við hliðina á eðlisfræðiskorinni og er fyrrverandi kirkjugarður. Ég tók reyndar ekki þátt í íþróttaatburðunum, en stóð við vallarmörkin með bjór og pylsu í hendi og veitti þannig fótboltagörpunum og blakhetjunum andlegan stuðning. Af reynslu minni af þessum hátíðum þekki ég mikilvægi þess að vera í regnkápu, því það bregst ekki að það byrji að rigna þegar eðlisfræðingar ætla að gera sér glaðan dag og hið árlega rafmagnsleysi lét heldur ekki á sér standa; um hálfellefu leytið hætti tónlistin að óma og bjórdælan gaf upp andann. Aðstandendur voru þó fljótir að hrekja upptök vandans, enda þaulvanir aðstæðum sem þessum. Drukkið var langt fram á nótt, mikið var dansað og gólað í skjóli myrkurs og sumir komust ekki einu sinni heim til sín, heldur urðu að gista í húsakynnum nemendastjórnarinnar. Ég komst þó óskaddaður, en nokkuð ölvaður, heim til mín.
Annars mun ég vinna frá 18. til 22. ágúst í stjörnuathugunarstöð, en það er í tengslum við stjarneðlisfræðiáfanga sem ég heimsæki. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég frétti að ég ætti ekki eftir að sitja þar allar nætur og fylgjast með næturhimninum, heldur einungis vinna úr eldri gögnum, en það er skárra en ekki neitt. Við eigum víst að greina litróf vetrarbrauta. Þann 23. ágúst mun ég síðan hitta Bergdísi og við verðum samferða heim til Íslands hinn 28. Ég verð á landinu til sjötta október; vonast til að hitta sem flesta í millitíðinni!
5. júlí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli