16. júlí 2008

Veirurvá á meðal nemenda

Fyrir um mánuði síðan heyrði ég sögu af nemanda nokkrum, hér í Leipzig, sem hafði farið til heimilislæknis vegna óskilgreindra óþæginda sem hrjáðu hann. Læknirinn tók víst einhver sýni, sem send voru í ræktun, því stuttu seinna barst þessum nemanda símtal, þar sem læknirinn bað hann að koma á stofuna sína hið snarasta; átti nemandinn ekki að hafa nein óþarfa samskipti við meðborgara sína og mátti ekki nota almenningssamgöngur. Það kom í ljós að nemandi þessi var berklasmitaður, sem kom honum mjög á óvart þar sem hann hafði ekki ferðast utan Evrópu (en margir smitast af einhverju í útlöndum og bera það með sér heim) í mörg ár. Umræddur nemandi nemur almenn málvísindi.

Í seinustu viku var síðan annar meðleigjenda minna, sem einnig er í málvísindanámi - og fólkið með henni í áfanga - beðin um að sitja eftir; heilbrigðismálaráðuneytið ætlaði að kanna hvort fleiri nemendur væru smitaðir. Voru þau sprautuð með efni, sem veldur bólgu í kringum stungusvæðið ef um er að ræða smit, og öll send í lungna-röntgenmyndatöku. Daginn eftir fékk hinn meðleigjandinn minn, sem er í kínversku, tölvupóst þess efnis að hún (ásamt öðrum úr áfanganum hennar) ætti að fara í athugun út af einhverjum ótilgreindum smitsjúkdómi. Eins og engan kann að furða, var um berklapróf að ræða.

Ég vil taka það fram að hjá þeim báðum reyndist „bólguprófið“ neikvætt og enn hefur enginn haft samband út af röntgenmyndatökunum. Það sýnist því á öllu að þær séu báðar ósmitaðar. Heilbrigðisyfirvöld virðast einnig taka ástandið alvarlega, svo ég efast um að það séu miklar líkur á því að yðar einlægur smitist af berklum... Vona ég.

1 ummæli:

Gunnhildur sagði...

Má ég byðja um eitt N í stað tveggja. Mig minnir að ég hafi lært í grunnskóla að tvö N fylgi karlkyni og eitt N kvenkyni. Ég þakka samt fyrir tengilinn !!
Hvenær ætlarðu svo að koma heim?