23. júlí 2008

Trúarblinda

Það er til trúað fólk, þ.e.a.s. fólk sem trúir því að eitthvað yfirnáttúrulegt standi á bak við alheiminn, og á meðal þess eru einstaklingar sem halda uppi svokallaðri guðskenningu. Kenning þessi segir upphaf alheimsins og alls lífs, fjölbreytileika lífvera og náttúrulögmálin vera verk guðs; veru sem er eldri en allt og á að vera hönnuður tilveru okkar. Guðskenningin er kenning, líkt og allar vísindalegar kenningar, og því í samkeppni við þær. Það má færa rök fyrir því að vísindin standi guðskenningunni framar, þar sem þau eru fær um að spá fyrir um hegðun náttúrunnar, á meðan báðar kenningarnar geta ekki útskýrt upphaf alls. Vísindin geta ekki svarað spurningunni „hvað olli miklahvelli?“ (ef það er þá yfir höfuð hægt að tala um einhverjar orsakir áður en tíminn varð til - sjá nánar greinina Í leit að skapara, á Dindli) á meðan guðskenningin, sem getur svarað spurningunni að framan, bregst þegar maður spyr sig „hvernig varð guð til?“ Að mínu mati hefur guðskenningin ekkert til málanna að leggja, því í stað þess að binda endahnút á þá keðju orsaka og afleiðinga, sem tilvera okkar samanstendur af, bætir hún einungis nýjum hlekk(jum) við keðjuna. En það er smekksatriði.

Guðskenningin verður því með einhverju móti að sanna sig og því reyna áhangendur hennar að finna fyrirbæri innan náttúrunnar, sem eru vísindalega óútskýranleg. Sköpunarsinnar - fylgjendur guðskenningarinnar - gætu útskýrt þessi fyrirbæri með hugmyndum um „gáfulega“ eða jafnvel „fullkomna“ hönnun, þ.e.a.s. að guð hafi skapað allt til að smella saman eins og púsluspil (þar sem hann hefur algjöra yfirsýn yfir sköpunarverk sitt). Sem sýnidæmi fylgir hér myndbrot, en í því eru færð rök fyrir „fullkominni“ hönnun banana:

Ég þarf vonandi ekki að benda neinum lesanda á að náttúruval þróunarkenningarinnar útskýrir einnig þessa „algjöru tilviljun“ innan náttúrunnar - þó án þess að gera ráð fyrir tilvist alviturs og óskeikuls skapara.

En er hægt að líta á guðskenninguna sem heiðarlega samkeppni við vísindin? Eftirfarandi er viðtal við einhvern verkfræðing (og rithöfund), Chuck Missler að nafni. Hann trúir eigin orðum svo innilega; ég veit ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta:

Taka skal eftir því að enginn stærðaskali á orku - sem það tekur að skapa líf - eða tíma - sem það tekur lífrænar sameindir til að hópast saman í einhvers konar grunnlíf (t.d. frumu) - er gefinn upp. Þetta er skólabókadæmi um það hvernig margir (ef ekki flestir) sköpunarsinnar taka meginmál vísindanna úr samhengi, til þess að villa um fyrir óvitum (og það er ekki sérlega heiðarlegt). Staðhæfingar Chucks eru frá öllum hliðum séð gallaðar, fáránlegar, jafnvel barnalegar og langt frá því að vera andsvar við svari vísindanna. Sem dæmi: tíminn sem það tekur líf að verða til er að öllum líkindum EKKI svipað langur og tíminn sem það tekur að útbúa hnetusmjör. Og ef svo væri væri ómögulegt að sjá þetta nýja líf með berum augum (en enginn skoðar hnetusmjörið sitt undir smásjá, áður en hann smyr því á brauðsneiðina sína) og þróun lífvera tekur líka örlítið lengri tíma en tíminn, sem líður á milli þess að hnetusmjörið fer í hillur verslana, og að kaupandinn kaupir það, svo það mun enginn gíraffi stökkva upp úr krukkunni - ef það er það sem Chuck á við. Einstaklingar eins og hann eru kannski (í stöku tilfelli) ekki mestu mannvitsbrekkurnar, en ég held frekar að þeir reyni ekki einu sinni að skilja kenningar vísindanna. Þeir eru alfarið blindaðir af trú.

Engin ummæli: