Í morgun vaknaði ég létt timbraður með setninguna „∏ eins og í partí“ stimplaða á úlnliðinn. Ég leit í kringum mig og fann blaut föt á gólfinu og buxur sem ég kannaðist ekki við. Ég var sólbrenndur á bringunni og frekar illa sofinn, en á föstudaginn hafði mikið gengið á.
Fyrr um daginn hafði ég hitt tvo starfsbræður úr eðlisfræðinni, Martin og Florian, yfir hádegisverði en við skruppum svo til suðurhluta Leipzig og fengum okkur sundsprett í gamalli brúnkolanámu, sem nú hefur verið fyllt af vatni. Það var þægilegt að sitja við ströndina, njóta útsýnisins - í kringum stöðuvatnið var landið gersamlega flatt, í fjarska mátti greina gamla kolagröfu og enn fjær kolaknúið orkuver - og að sjálfsögðu ómissandi að kæla sig í vatninu. Florian ber gælunafnið Flo, sem lýkist þýska orðinu yfir fló („Floh“), og að mörgu leiti á það nafn vel við hann en mér finnst hann svolítið líkjast kakkalakka. Ég veit ekki hvort það sé vegna gleraugnanna, en hann er fjærsýnn og því virðast augu hans stærri á bak við linsurnar, eða skordýralegs líkama hans. Áður hafði ég á tilfinningunni að hann væri í raun sexhentur og fæli hin handapörin undir stuttermabolnum, en á föstudaginn komst ég að því að hann er bara með fimm útlimi. Ég brann létt á nefi og bringu í hádegissólinni.
Um fjögurleytið byrjaði að rigna og rigndi það enn þegar ég fór á lestarstöðina til að sækja félaga minn, stærðfræðinginn Enno, klukkan tíu en hann kom þetta kvöldið frá Hamburg og ætluðum við á tónleika sem stærðfræðinemar stóðu að. Á tónleikunum hlaut ég ofannefndan stimpil en við Enno mættum einmitt þegar hljómsveit kvöldsins, ska-sveit sem klæddist hvítum skyrtum, byrjaði að spila. Þó ég sé ekki mikill aðdáandi ska-tónlistar var ég bara nokkuð sáttur við útkomuna. Ég hitti einnig aðra stærðfræðinga, sem ég hafði ekki séð í langan tíma, þ.á.m. Eric sem sagði mér frá nýjustu gullmolum fjögurra ára bróður síns. Annars vegar hélt sá stutti því fyrir skömmu fram að „hundrað væri hraðskreiðasta talan“ - vorum við báðir sammála um að svo hlyti að vera, þetta væri bara spurning um að skilgreina hraða talna - og hins vegar hafði hann spurt, í jarðarför ömmu sinnar þegar honum var sagt að amma hans væri nú hjá Guði, „hvort að þessi Guð væri þá líka dáinn“! Um hálfþrjú kom svo uppástungan að skreppa heim til Enno, drekka brennivín og borða harðfisk. Þá var ég orðinn ansi drukkinn en það rigndi enn og ég ætlaði að reyna að ná næturstrætóinum klukkan 3:33. Heima hjá Enno fékk ég símtal frá besta vini mínum, Skúla Á. Sigurðssyni, sem var í partíi hjá æskuvini sínum Ragnari, ásamt leikaranum Tom Hanks, og var þar greinilega mikið um dýrðir. Við Skúli höfum verið vinir frá því í fyrsta bekk grunnskóla og hafði honum verið hugsað til mín við blöndun á Cuba Libre. Fötin mín voru blaut en Enno krafðist þess að ég færi í þurr föt og þannig endaði ég í röndóttum buxunum, sem ég fann næsta morgun á gólfinu heima hjá mér. Þegar ég ætlaði svo að rölta niður á stoppistöð fékk hann mér einnig gulan regnstakk, bláan regnhatt og tékkneskan bjór og þannig, eins og Paddington bangsi, hélt ég heim; endaði í rúminu klukkan fimm og svaf svefni hinna saklausu til klukkan ellefu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hraðskreiðasta talan er hér með samþykkt.
Skrifa ummæli