25. júní 2007

Perúskar bókmenntir

Í dag er mánudagur. Í dag fylgdist ég með húsflugu sem hringsólaði í kringum lampaskerminn minn. Reyndar gerði hún allt annað en að hringsóla, því að flugbraut hennar var uppfull af hvössum hornum - m.ö.o. í stað þess að skipta um átt með hjálp hringhreyfingar sneri þessi fluga sér eldsnöggt í loftinu, stöðugt veljandi nýja stefnu. Um tíma var sem að hún væri föst inni í gegnsæjum kassa og myndi skoppa af veggjum hans. Ég hélt að flugan væri orðin galin, þegar ég uppgötvaði aðra flugu sem sat á lampaskerminum og varð þá ljóst að hornadansinn væri hluti af mökunarferli flugunnar. Kvenflugan var samt ekkert rosalega hrifin, þar sem hún flúði lampaskerminn í hvert sinn sem fluguherrann reyndi að stíga í vænginn við hana. Svona gekk þetta í hálftíma og undir lokin brást honum bogalistin; flugbrautin varð sífellt ávalari enda virtist hann orðinn þreyttur. Svo hvarf flugukarlinn.

Ég byrjaði líka á nýrri bók í dag, en hún heitir svo mikið sem Pantaleón y las visitadoras á frummáli og á þýsku eitthvað sem þýða mætti sem „Höfuðsmaðurinn og frúarhersveit hans“. Bókin er eftir perúskan (eða á háfrónsku: háhaflenskan) rithöfund, Mario Vargas Llosa, en honum kynntist ég í Belgrad, þar sem ég keypti bók hans „Hildarleikurinn um heimsins lok“ (La guerra del fin del mundo). Sú bók fjallaði um lífið í Norður-Brasilíu um aldamótin 1900. Sagt var frá spámanni, sem bjó yfir þvílíkum sannfæringarkrafti að hann fékk ræningja og aðra glæpamenn til að ganga til liðs við sig og Guð almáttugan, en spámaður þessi skar upp herör gegn lýðveldisríkinu Brasilíu. Lýðveldissinnarnir innleiddu borgaralegar giftingar og metrakerfið og unnu að manntali, en spámaðurinn lýsti því yfir að þetta væri verk andkrists; hjónabönd ættu að hljóta blessun Guðs, metrakerfið væri djöfulslegt og manntalið leið til að hafa uppi á blökkumönnum landsins, svo að hneppa mætti þá aftur í ánauð. Spámaðurinn, ásamt fylgismönnum sínum, sest að í litlum fjallabæ og hefst þá stórbrotin atburðarrás, þegar ríkisstjórn Brasilíu lýsir yfir stríði gegn byltingarmönnunum í norðri. Persónur bókarinnar eru flestallar fatlaðar eða stórglæpamenn - fyrir utan skosku byltingarhetjuna, konuna sem hann nauðgaði, nærsýna blaðamanninn með frjókornaofnæmið og fyrrum sirkusdverginn - en bókin er stórvel skrifuð og varð ég himinlifandi þegar faðir minn sagðist hafa lesið eitthvað eftir Llosa og lét mig hafa eintak sitt af Höfuðsmanninum og frúarhersveit hans. Í stuttu máli fjallar sú bók um höfuðsmann, sem fær það hlutverk að draga úr nauðgunartilfellum innan hersins. Um er að ræða ákveðið hérað þar sem hermennirnir hlaupa á eftir hverju pilsi, við mikla óánægð innfæddra, og á höfuðsmaðurinn að koma þar á fót fylgdarþjónustu til að seðja hvatir dátanna.

Llosa er einnig þekktur í heimalandi sínu fyrir stjórnmálaferil sinn, en hann bauð sig m.a. fram til forseta Perú árið 1990, sem hann hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir. Eins og margir aðrir Suður-Ameríkubúar studdi hann uppreisnina á Kúbu og ríkisstjórn Castros en hann varð seinna frjálslyndur og hallaðist að markaðshyggju. Það breytir þó því ekki að hér er á ferðinni afbragðs rithöfundur sem kann svo sannarlega til verka!

1 ummæli:

Unknown sagði...

Fluguklám.

http://blog.central.is/skulisig